Beint í efni

Tobías trítillinn minn

Tobías trítillinn minn
Höfundur
Magnea frá Kleifum
Útgefandi
Iðunn
Staður
Reykjavík
Ár
1985
Flokkur
Barnabækur

Myndir eftir Sigrúnu Eldjárn.

Úr Tobíasi trítlinum mínum:

Kæri litli Tobías minn, hvað verður úr þér, þegar þú verður stór, hugsaði Sighvatur meðan hann þvoði sokkana sína upp úr læknum og hengdi þá til þerris. Eins og svar við hugsunum hans sagði Tobías sem hafði setið hljóður í grasinu og horft á hann:
 - Þegar ég er orðinn stór ætla ég að verða læknir og gera alla stutta fætur langa.
 Sighvatur brosti, - þú mátt passa þig að gera þá ekki of langa svo lengri fóturinn verði of stuttur á eftir.
 - Nei ég ætla að mæla þá ógurlega vel, ég kaupi mér reglustiku eins og pabbi á, svaraði Tobías grafalvarlegur, - það skal enginn þurfa að vera með stuttan fót þegar ég er orðinn stór.

(s. 5)

---

 - Bull, sagði pabbi hennar, - mamma þín var alltaf í góðu skapi meðan hún þurfti að vera heima hjá þér. Henni var gefin falleg söngrödd í vöggugjöf og hana langar til að lofa öðrum að njóta hennar með sér, þess vegna vill hún læra meira og meira.
 Tinna andvarpaði, hversvegna fékk ég ekkert í vöggugjöf?
 - Þú fékkst sannarlega góða vöggugjöf Trýnan mín, sagði pabbi hennar og kyssti hana á kinnina.
 - Hvað þá, ég get ekki sungið og ekki málað, eiginlega ekki neitt, sagði Tinna.
 - Þú fékkst fallegan og hraustan líkama, gott skap og óþrjótandi ímyndunarafl, sem á eftir að koma þér að góðum notum, sagði pabbi hennar.
 - En Tobías, hvað fékk hann? spurði Tinna.
 Tobías starði stóreygur á Sighvat, ekki gat hann sagt að hann hefði fallegan og hraustan líkama.
 - Horfðu bara á hann, sagði Sighvatur. - Hverju vildir þú helst breyta hjá honum?
 Tinna hugsaði sig um lengi og virti Tobías fyrir sér frá toppi til táar, svo leit hún vandræðalega á pabba sinn.
 - Veistu það pabbi, ef ég setti gullhár á Tobías og gerði báða fætur jafn langa, þá væri hann ekki Tobías lengur, heldur einhver allt annar.
 - Það er einmitt það Tinna mín, hann verður að vera eins og hann er, annars væri hann ekki hann Tobías okkar, við mundum ekki vilja breyta honum þó við gætum. Hann trítill okkar er bestur svona og okkur þætti ekki eins vænt um hann, væri hann öðruvísi, sagði Sighvatur og tók Tobías í fangið.
 Tobías hitnaði svo inni í brjóstinu, að tárin komu fram í augun á honum og hann gat ekkert sagt dálitla stund, svo hvíslaði hann lágt:
 - Það væri samt gaman að vera fljótur að hlaupa og geta spilað fótbolta.
 - Ég veit það stúfur minn, sagði Sighvatur, en þú átt eftir að spila, og sú spilamennska á eftir að gefa þér svo miklu, miklu meira en þó þú gætir spilað fótbolta. Vertu bara ánægður með þína vöggugjöf, því hún á eftir að verða þér svo ómetanlega dýrmæt.

(s. 73-74)

Fleira eftir sama höfund

Karlsen stýrimaður

Lesa meira

Í álögum

Lesa meira

Sossa litla skessa

Lesa meira

Sossa skólastúlka

Lesa meira

Sossa sólskinsbarn

Lesa meira

Sossa sönn hetja

Lesa meira

Tobías og Tinna

Lesa meira

Tobías og vinir hans

Lesa meira

Tobías, Tinna og Axel

Lesa meira