Beint í efni

Tobías, Tinna og Axel

Tobías, Tinna og Axel
Höfundur
Magnea frá Kleifum
Útgefandi
Iðunn
Staður
Reykjavík
Ár
1987
Flokkur
Barnabækur

Myndir eftir Sigrúnu Eldjárn.

Úr Tobíasi, Tinnu og Axel:

Sighvatur stóð við bílinn, tuggði puntstrá og horfði hugsandi á Tobías, sem sat á þúfu og mændi á hann. Svona hafði hann setið í langan tíma, ekki sagt eitt einasta orð, bara fylgt hverri hreyfingu Sighvats eftir, sorgmæddur á svipinn. Svo henti Sighvatur puntstráinu, gekk til Tobíasar, beygði sig niður og rótaði í hári hans með einum fingri.
 - Ósköp ertu stúrinn, stúfur minn, sagði hann brosandi.
 - Þetta er þó sumarfríið okkar og við eigum að vera glöð og kát, er það ekki?
 - En bréfið, stundi Tobías upp.
 Sighvatur settist á þúfuna hjá honum og andvarpaði. - Já, þetta bréf, víst var það ekki neitt sérlega skemmtilegt, en það hefði getað verið verra.
 - Verra, hvernig verra? spurði Tobías.
 Sighvatur svaraði ekki þessari spurningu, en strauk yfir kollinn á Tobíasi og bað hann að sækja Tinnu, sem sat á steini niður í fjöru og horfði út á sjóinn. Hún vildi vera ein, því hún var enn reið og sagði margt sem hún hefði ekki átt að segja, bæði við pabba sinn og Tobías, þegar þeir reyndu að tala við hana. Reyndar sá hún strax eftir því sem hún sagði, en það var svo erfitt að biðja fyrirgefningar, þegar maður var svona voðalega sár.
 Núna var hún mest reið við sjálfa sig. Ef hún gaut augunum aðeins útundan sér, sá hún pabba sinn sitja hjá Tobíasi. Það var eins og Tobías væri drengurinn hans, en hún ókunnug stelpa, og nú tóku tárin stór og heit að renna niður kinnarnar á henni, niður munnvikin, sölt eins og sjórinn sem rumdi við fjöruborðið með ólundartón.
 Tobías nálgaðist Tinnu hægum skrefum. Þegar hún var svona reið, var hann hræddur við hana. Þá var hún ekki hún sjálf, heldur einhver allt önnur stelpa. Alveg eins og fólkið þegar það svaf, hann hafði alltaf verið dauðhræddur við sofandi fólk, það var svo ókunnugt, eins og frá öðrum hnetti.
 Ef Tinna væri nú orðin að umskiptingi, eins og hann í sögunni, þegar hann var með báða fætur jafnlanga og álfkonan kom og skipti á honum og gamla ljóta greppitrýninu sínu. Tinna hafði sagt honum þessa sögu og hann trúði henni næstum því, jafnvel þó Tinna segði að þetta væri bara ævintýri sem hún hefði búið til og hann væri bjáni að trúa öllu sem honum væri sagt. Svo sá hann að Tinna var að gráta og hún vafði Jóku að sér. Það mundi umskiptingur ekki gera, þeir voru heldur ekki fallegir eins og þessi stelpa sem sat þarna á steininum, og þó hann vissi ekki hvernig greppitrýn voru, þá var alveg víst að þau voru svo ógurlega ljót, að enginn villtist á þeim og venjulegri stelpu.

(s. 5-6)

Fleira eftir sama höfund

Krakkarnir í Krummavík

Lesa meira

Kátt er í Krummavík

Lesa meira

Sossa litla skessa

Lesa meira

Sossa skólastúlka

Lesa meira

Sossa sólskinsbarn

Lesa meira

Sossa sönn hetja

Lesa meira

Hold og hjarta : skáldsaga

Lesa meira

Tobías og Tinna

Lesa meira

Tobías og vinir hans

Lesa meira