Beint í efni

Sossa litla skessa

Sossa litla skessa
Höfundur
Magnea frá Kleifum
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1995
Flokkur
Barnabækur

Myndir eftir Þóru Sigurðardóttur.

Úr Sossa litla skessa:

Ég er kölluð “píslin á prikinu” af því að það næst skemmtilegasta sem ég geri er að þeysa um túnið á brotnu hrífuskafti sem ég nota fyrir hest. Ég valhoppa, brokka, tölti eða stekk niður með bæjarlæknum þar sem fætur okkar systkinanna og margra annarra krakka á undan okkur hafa markað djúpan krókóttan götuslóða alla leið niður að Dverg.
 Dvergur er stór og mikilúðlegur steinn á Hreggnasanum. Enginn veit hvernig hann hefur komist þangað. Ef hann hefði hrunið úr fjallinu hefði hann áreiðanlega sokkið í mýrina sem er á leiðinni eða stoppað í þýfðu túninu. Og ekki hefur sjórinn borið hann hingað upp því bakkarnir eru svo háir. Þarna stendur hann aleinn, engir steinar nálægt.
 Auðvitað búa dvergar í þessum steini, þess vegna heitir hann Dvergur. Við förum sjaldan framhjá honum án þess að klifra upp eina hliðina og renna okkur niður aðra sem er rennislétt og rosalega brött. Stjáni einn getur hlaupið þar upp ef hann er berfættur. Við hin komumst bara hálfa leið.

(s. 5)

---

Mamma hrekkur við þegar Magga segir henni hver sé að koma. Hún stingur annarri hendi undir þríhyrnuna sína og þrýstir henni að hjartanu þegar hún sér hvað presturinn er alvarlegur á svipinn.
 Báturinn sem Gummi var á hafði farist í ofviðri og allir mennirnir á honum drukknað.
 Það er dauðaþögn í baðstofunni. Við erum öll stjörf af skelfingu. Meira að segja tvíburarnir láta ekkert í sér heyra. Presturinn faðmar mömmu að sér og tekur fast í höndina á pabba. Svo biður hann fallega bæn og fer með Faðirvorið sem hann lætur okkur öll lesa með sér.
 Á eftir læðumst við Stína út í fjós, grátum saman og þrýstum okkur að hlýjum hálsinum á kúnum. Hugsunin um að Gummi komi ekki aftur heim er svo yfirþyrmandi og ógnarleg. Við getum ekki ímyndað okkur hvernig lífið verði án hans.
 Pabbi heldur öllum alvarlegum með augnaráðinu einu saman. Meira að segja Nonni og Jósep þora ekki að ærslast og hlæja þegar hann er nálægur. Á kvöldin talar hann miklu lengur við Guð en hann er vanur, en við fáum ekki að heyra hvað hann segir.
 Svo einn daginn kallar mamma okkur inn í baðstofu og lætur okkur setjast á rúmin okkar. Hún horfir á okkur hvert og eitt dálitla stund, þögul, og byrjar svo að tala.
 - Þó að Gummi sé horfinn frá okkur verðum við að halda áfram að lifa, hlæja, syngja og vera glöð, segir hún. - Það mundi Gummi vilja. Auðvitað getum við aldrei gleymt honum og það eigum við heldur ekki að gera. Hann verður ævinlega bróðir ykkar. En þið eigið fleiri bræður, og þið skulið biðja Guð um að senda Munda og Stjána heila á húfi heim til okkar aftur.
 Pabbi gengur út án þess að segja orð en mamma heldur áfram að tala við okkur, segir að við eigum líka að biðja Guð að láta Gumma og hina mennina finnast svo að þeir fái að hvíla í vígðri mold.
 Þegar Mundi og Stjáni koma heim stamar Stjáni að hann vildi óska þess að það hefði verið hann sem hefði drukknað. - É-ég vildi að það hefði verið ég, segir hann aftur og aftur og tárin renna niður útitekið andlitið.

(s. 123-124)

Fleira eftir sama höfund

Krakkarnir í Krummavík

Lesa meira

Kátt er í Krummavík

Lesa meira

Sossa skólastúlka

Lesa meira

Sossa sólskinsbarn

Lesa meira

Sossa sönn hetja

Lesa meira

Hold og hjarta : skáldsaga

Lesa meira

Tobías og Tinna

Lesa meira

Tobías og vinir hans

Lesa meira

Tobías trítillinn minn

Lesa meira