Beint í efni

Sossa sönn hetja

Sossa sönn hetja
Höfundur
Magnea frá Kleifum
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1998
Flokkur
Barnabækur

Úr Sossa sönn hetja:

Veturinn leið og ég átti bréf frá Lars innan í hverju bréfi sem mamma hans fékk. Líklega hefur hann ekki treyst því að gamli Larsen afhenti mér þau þegar hann þekkti skriftina.
 Fyrsta bréfið byrjaði ósköp hversdagslega. “Sæl og blessuð Sossa mín”, það næsta “Litla rauðkollan mín” og það síðasta “Ástin mín litla”. Mér hitnaði allri og gleypti í mig öll þau fallegu orð sem hann hafði sett á pappírsörkina og ætluð voru mér einni. Mér einni af öllum stelpum sem hann þekkti. Ég gat ekki trúað því og bréfin frá mér voru bara eins og venjuleg kunningjabréf. Ég gat ekki skrifað honum hugsanir mínar, þær fóru í rauða bók sem hægt var að læsa. 
 ,,Ég er búinn að kaupa á þig hvítan síðan brúðarkjól og þú átt að hafa ættarslæðuna, kórónuna og allt það glingur sem formæður mínar hafa haft í brúðkaupunum sínum. Amma segir að það megi ekki bregða út af þeirri gömlu reglu. Ég fékk líka hvítu skóna sem mamma gifti sig í en keypti samt aðra því ég vona að þeir gömlu passi ekki, ég vil ekki að konan mín gangi í notuðum skóm,” skrifaði hann. 
 ,,Amma og afi eru strax farin að rusla út úr herbergjunum sem við eigum að hafa og láta mála þau, en húsgögnin sagðist ég vilja velja með þér. Þau taka ekki annað í mál en við búum hjá þeim, enda er húsið stórt svo það ætti ekki að koma til árekstra, enda held ég að þeim eigi eftir að falla vel við þig og þú eigir eftir að elska þau.”
 Það var þetta að elska. Ég hafði aldrei tekið mér það orð í munn, alveg sama hve oft Lars sagðist elska mig, ég gat ekki svarað í sömu mynt. Fólkið heima talaði ekki þannig og þó elskuðum við auðvitað öll hvert annað, við sögðum það bara aldrei með orðum. Stundum sagði mamma reyndar elskan mín og pabbi reyndi að kenna okkur að elska Guð en það var svo allt öðruvísi. Ástin mín litla? Ætli pabba hefði nokkurn tímann dottið í hug að byrja þannig á bréfi til mömmu? Nei hann hefði sagt ,,Sæl og blessuð ævinlega Sigríður mín”, ég er alveg viss um það, og endað með að fela hana góðum Guði en ekki með þúsund kossum eins og Lars.

(s. 130-131)

Fleira eftir sama höfund

Karlsen stýrimaður

Lesa meira

Í álögum

Lesa meira

Sossa litla skessa

Lesa meira

Sossa skólastúlka

Lesa meira

Sossa sólskinsbarn

Lesa meira

Tobías og Tinna

Lesa meira

Tobías og vinir hans

Lesa meira

Tobías trítillinn minn

Lesa meira

Tobías, Tinna og Axel

Lesa meira