Beint í efni

Sossa skólastúlka

Sossa skólastúlka
Höfundur
Magnea frá Kleifum
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1997
Flokkur
Barnabækur

Myndir eftir Þóru Sigurðardóttur.

Úr Sossu skólastúlku:

Gugga og Magga áttu að bera inn matinn, en þær þurftu að skreppa fram í stofu að tensa sig til fyrir strákunum. Þá sá ég mér færi, hellti pipar í gestaskálarnar og hálfu glasi af laxerolíu í hvora, hrærði vel í og fylgdist með því að þær færu í réttar hendur.
Jú, jú, þær gerðu það, enda ekki notaðar nema handa gestum. Við eigum öll hvert sína skál.
Það var langt síðan kjötsúpa hafði verið á borðum, en nú áttum við að gæða okkur á veslings gangnalambinu.
Ég sá Kugg gjóta augunum útundan sér á Mugg og verða skrítinn á svipinn. Ekki þorði hann samt annað en halda áfram að borða. Pabbi hrósaði matnum og spurði hvort þeim væri ekki nýnæmi að fá kjötsúpu.
- Jú-ú, umlaði Muggur og strauk tár sem læddist niður kinnina á honum.
Ég mundi varla eftir því að borða, ég var svo æst innan í mér og hlakkaði til að sjá hvort laxerolían virkaði áður en þeir færu.
Hvað mamma segði þegar hún fyndi ekki glasið vildi ég ekki hugsa um.
Mamma hitaði kaffisopa handa fullorðna fólkinu, og þegar allir voru búnir að borða tíndum við Stína saman skálarnar og fórum að þvo þær upp frammi í eldhúsi. Mamma hellti kaffi í bollann hans pabba og tvær könnur handa strákunum og ofurlítinn sopa skildi hún eftir handa sjálfri sér.
Einhver púki dansaði inni í mér og mér fannst ég endilega þurfa að hrella strákana meira.
Saltkrúsin stóð á eldhúsbekknum, rétt fyrir framan nefið á mér. Ég leit á Stínu. Hún horfði niður í uppþvottafatið og sönglaði fyrir munni sér. Mamma var að hella mjólk í könnu við hinn bekkinn og sneri baki í okkur. Eldfljót tók ég hnefafylli af salti og lét vænan slurk í hvorn fant, stakk svo hnefanum ofan í vatnið hjá Stínu til að skola af mér. Hún horfði undrandi á mig en sagði ekkert. Stundum er gott hvað hún Stína systir mín er eftirtektarlaus.
Mamma bar inn kaffið en ég rak á eftir Stínu við uppþvottinn, þurrkaði skálarnar með hraði og settist svo inn í baðstofu. Pabbi var að spyrja strákana frétta og ekkert að flýta sér út í verkin.
Muggur saup fyrst á sínum bolla og hefur sjálfsagt hlakkað til að skola niður óbragðinu í munninum eftir súpuna, en honum svelgdist svo á að mamma varð að slá á bakið á honum til að hann næði andanum.
Eldrauður í framan, sveittur og með tárin lekandi úr augunum hætti hann loks að hósta og þurrkaði sér í framan. Augnaráðið sem ég fékk hefði getað drepið naut en ég brosti bara til hans.
Kuggur saup nú á sínu kaffi og skelfingarsvipurinn á honum var óborganlegur.
Pabbi hélt um bollann sinn, dæsti og naut hvers sopa. Kaffi er munaður sem hann kann að njóta.
- Blessaðir látið ekki kaffið verða kalt, sagði hann og strákagreyin þorðu ekki annað en fá sér meira.

(s. 15-16)

---

- Litla systir mín, hvíslaði ég og væntumþykja sem ég hafði aldrei fundið fyrir áður gagntók mig. - Elsku litla systir mín, hvíslaði ég að henni.
Hún horfði á mig grafalvarleg og setti svo skrítinn stút á litla munninn. Ég bjóst við að hún færi að skæla en munnurinn opnaðist allt í einu og hún brosti. Þegar ég sagði frá því á eftir trúði mér enginn, mamma sagði meira að segja að svona svipur á litlum börnum kæmi bara af vindverkjum. Mér er alveg sama, ég veit það, ég sá það, hún brosti til mín og upp frá þessari stundu var hún barnið mitt.

(s. 30)

Fleira eftir sama höfund

Krakkarnir í Krummavík

Lesa meira

Kátt er í Krummavík

Lesa meira

Sossa litla skessa

Lesa meira

Sossa sólskinsbarn

Lesa meira

Sossa sönn hetja

Lesa meira

Hold og hjarta : skáldsaga

Lesa meira

Tobías og Tinna

Lesa meira

Tobías og vinir hans

Lesa meira

Tobías trítillinn minn

Lesa meira