Beint í efni

Vargatal

Vargatal
Höfundur
Sigfús Bjartmarsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
1998
Flokkur
Smásögur

Úr Vargatali:

HAFÖRNINN

- Og þá að hann sé í rólegheitunum að úrelda sig með fyrirtekt og forneskju þar sem hann þverskallast við sínar eftirlitssetur á sömu syllum, klettum, staksteinum og stöplum og vel hafa gefist frá alda öðli, situr eins og stytta og skannar víðáttuna eftir því hvort að beri æti eða átroðning úr þeirri marauðn sem veldi hans er að verða æ oftar.
 Jú og að þá standi tíminn jafn grafkyrr og hann þar til eitthvað verður til þess að rífa hann á loft og upp í þá ógnandi mynd sem þjónar þó ekki miklum tilgangi öðrum en stugga óviðkomandi frá setrunum sem varða veldið og eru reyndar sumir varpstaðir líka. - Og að því verki loknu skulum við segja að hann setjist aftur og hugi um stund að óhrjálegum hrauknum sem hann ætlar að verpa í núna ef tekst þá að efna í eggin sem ekki er á hverju ári. - Nú og takist það á hann í mesta basli iðulega við að koma upp unga hvað þá tveimur eða þremur.
 Þar kemur reyndar mannfælnin líka stundum við sögu, greinilegt hvernig hann fer óðara að titra allur innvortis geri njósnarar atlögu að einveru hans. En hvort það stafar af bræði, ótta eða óbeit eða því öllu til samans er ekki gott að segja en allavega eru það svo magnaðar kenndir að hann afrækir stundum þó ekkert illt hafi hent eggin eða ungana.
 Og þá hafa menn stundum orðið vitni að því að nú ætli grimmdarviljinn bara ekki að nást í gang, eins og nú sé hann orðinn uppgefinn á þessu árangurslausa hringsóli eftir grásleppu eða rauðmaga á nógu grunnu fyrir klærnar, á eftir silungi eða laxi í á eða ósi. - Hefur reyndar aldrei verið mikil veiðikló í rauninni þó verklegt geti verið að sjá til hans, of klunnalegur og seinn á sér, oft á tíðum beinlínis slysalegur þó þeir ljúgi því nú sennilega að hann hafi misst fótinn eftir að hann krækti annarri klónni í stórlax við bakka, hékk svo á hinni í torfu og togaðist á við fiskinn þar til löppin rifnaði af. Nú eða að tófa sem hann hremmdi einu sinni hafi rifið hann á hol í lofti og bæði dottið dauð niður. Eða hann hafi glæpst á að krækja sér hausinn á fullorðnum sel og hangið í þar til hann drekkti honum, allt af því, segja sögurnar, að hann geti ekki þó hann feginn vildi rétt úr klónum og sleppt því sem hann hefur einu sinni náð nema éta það úr klónum.
 En þá erum við reyndar stödd í fagurmóðu þjóðsagnanna, á slóðum þar sem hann er einn þeirra fulltrúa hins illa sem ávallt fær makleg málagjöld í lokin.
 En í kuldalegu ljósi fræðanna er hann hinsvegar meiri hrægammur en ránfugl þó ef til vill hafi honum gengið eitthvað betur við fiskveiðar hér áður fyrr og eins með æðarfuglinn til að mynda meðan tófan hélt honum öllum úti í aðgengilegum hólmum.

(s. 111-113)

Fleira eftir sama höfund

Das Licht dieser Welt

Lesa meira

Raptorhood

Lesa meira

Speglabúð í bænum

Lesa meira

Verndarengill

Lesa meira

Tröllasögur : skáldsagnir

Lesa meira

Án fjaðra

Lesa meira

Beint af augum

Lesa meira

Allra átta

Lesa meira

Sólskinsrútan er sein í kvöld

Lesa meira