Beint í efni

Tröllasögur : skáldsagnir

Tröllasögur : skáldsagnir
Höfundur
Sigfús Bjartmarsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
1991
Flokkur
Smásögur


Meðhöfundar: Gunnar Harðarson og Magnús Gestsson

Úr Tröllasögum:

Brennivínið í Bláfjöllum (brot)

... Magnast nú grunsemdirnar um stund þar til hann þykist viss að hann muni villtur orðinn og hafi álpast inn á afleggjara. Lætur hann þó skeika að sköpuðu því hvergi var bílnum snúandi. Tekur nú lokunartíminn í Árbænum á næsta fljúgandi stjórnlausa ferð sem einn afturendi á vörubíl nálgist undan brekku. Veit hann þá ekki fyrri til en ofaná myrkvið þankanna bætist að ladan situr föst. Voru nú góð ráð dýr því engin var skóflan í skotti Hvergerðings og sortna mjög sýnir þá er ekki blasti við utan dauði eða Björgunarsveitin Ingólfur meður sigurglotti. Líður svo nokkur stund. Heyrir hann þá barið á afturrúðuna og þykist þar greina hvar andi einn í flöskulíki guðaði á bílinn. Verður hann glaður við og snarast út í kófið. Gerist þá í samri svipan að hviða sviptir hurðinni aftur en manninum á loft og fær hann lendingu mjúka og viðtökur í fangi skessu einnar mikillar. Var þó barmurinn kuldalegur heldur enda fannbarinn mjög og sýlaður efst. Er nú múrarinn skjótráður og tekur atlotum greddulega í hvívetna. Lætur hann sér vel líka þó ekki fari vettlingarnir sem notalegast innan klæða. Fer svo fram kjassi um hríð að ekki fallast múraranum hendur fyrr en svo mjög tóku kinnar að mynnast við hann sem helblá kýrjúgur ofan úr hríðinni. Tekur þá skessa til máls og kveðst vilja hafa hann heim með sér. Gegnir múrarinn fáu en hýrnar þó við er hún kveðst föng eiga væn og gnótt af brennivíni til jólanna. Er nú skemmst frá því að segja að skessa veður blindhríð með múrarann og veglausar fannir og koma þau í hellinn heilu og höldnu. Bjart var þar inni og svo hlýtt meður sætlegum glöggilmi að þegar sveif að múraranum unaður, ef ekki beinlínis ölvun. Ekki þótti honum ýkja tröllslegt í híbýlum skessu og svipa undarlega til skíðaskálans nýja í Bláfjöllum. Varð sú hugsun þó endaslepp svo myndarlega sem skessan skenkti í hið fyrsta mál. Færðist nú skjótt ylur í æðar sökum þess að plastmálin reyndust hvert öðru vænna. Veit nú múrarinn æ minna til þessa heims fyrir friðsæld og því brosmilda tuldri er á hann sótti þá skessa dró af manninum vosklæði þau sem enn sátu uppi.

(s. 70-71)

Fleira eftir sama höfund

Das Licht dieser Welt

Lesa meira

Raptorhood

Lesa meira

Speglabúð í bænum

Lesa meira

Verndarengill

Lesa meira

Án fjaðra

Lesa meira

Beint af augum

Lesa meira

Allra átta

Lesa meira

Sólskinsrútan er sein í kvöld

Lesa meira

Drekkhlaðinn kajak af draugum : sagnir Ínúíta

Lesa meira