Beint í efni

Sögur úr Síðunni

Sögur úr Síðunni
Höfundur
Böðvar Guðmundsson
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Skáldsögur

Af bókarkápu:

Sögur úr Síðunni eru tengdar sögur með sameiginlegum persónum. Sögusviðið er íslensk sveit um miðja síðustu öld. Fjölskyldan á Bóli er í forgrunni og í fylgd yngsta barnsins, sögumannsins Kára, kynnumst við heillandi veröld sem er ekki fjarlæg, hvorki í tíma né rúmi, en gæti þó stundum verið í aldarfjarlægð því svo margt hefur breyst síðan þá. Hér segir frá góðu fólki, sumu broslegu en jafnframt örlátu og höfðinglegu þegar á reynir. Eftirminnilegir atburðir lifna á ný í frásögn sem leiftrar af kímni.

Úr Sögum úr Síðunni:

Í Síðunni eru margir bæir, þar er líka margt fólk, en það eru svo til engin börn. Ekki á aldur við Kára. Á næstum því öllum bæjum eru íbúðarhús úr timbri og bárujárni, á tveimur bæjum eru húsin úr steinsteypu og á tveimur bæjum eru bæjarhúsin enn úr torfi og grjóti. Mörg útihús eru líka úr torfi og grjóti. Það eru margir hestar á hverjum bæ, sumir eru reiðhestar, aðrir vagnhestar. Kára er illa við hesta, þeir eru stórir og hættulegir, geta stigið ofan á mann þegar minnst varir. Hann hefur stundum verið settur klofvega upp á bakið á gömlum vagnhesti, en honum þykir það ekkert skemmtilegt. Stundum þegar er sumar er farið í útreiðartúra á sunnudögum, þar er stórhættulegt, jafnvel þótt maður sé reiddur á hnakknefi. Sæmundur ríður einn og óstuddur á gamalli hryssu sem heitir Skjóna. Hann er ekki hræddur við neitt. Einu sinni var verið að leggja af stað í reiðtúr, Sæmundur sestur í hnakkinn og montaði sig. Gaf Kára langt nef og sagði að hann væri aumingi. Þá varð Barði reiður og tók lurk sem lá á hlaðinu og lamdi í rassinn á Skjónu. Þá fór Skjóna og allir hinir hestarnir að hlaupa og Sæmundur datt af baki mitt í allri hestaþvögunni. Hann var hálfrotaður á eftir og maður sem hét Jósep læknir kom í drossíu og skoðaði Sæmund og sagði að hann hefði fengið heilahristing og ætti að liggja í rúminu í dag. Mátulegt á hann. En fullorðna fólkið kunni Barða engar þakkir.
„Réttast væri að flengja þig,“ sagði Jóhannes við Kára.
„Maður má ekki af þér líta,“ sagði Sóla, „ekki veit ég hvert þú sækir þessa óart.“
„Morðingi,“ sagði Jóhanna stórasystir og kleip Barða í eyrað svo Kári fór að orga.
„Æ, auminginn, þetta er óviti og veit ekki hvað hann gerir,“ sagði Fríða gamla. „En oft verður nú góður hestur úr göldnum fola.“ 

(bls. 8-9)

Fleira eftir sama höfund

Edgar Sawtelle

Lesa meira

Reiði Múlgarata

Lesa meira

Tréð í járnskóginum

Lesa meira

Norður og niður

Lesa meira

Kalli og sælgætisgerðin

Lesa meira

Og sagði ekki eitt einasta orð

Lesa meira

Ljóð í 25 poètes islandais d´aujourd´hui

Lesa meira

Risavandi

Lesa meira

Ljóð í Wortlaut Island

Lesa meira