Beint í efni

Og sagði ekki eitt einasta orð

Og sagði ekki eitt einasta orð
Höfundur
Böðvar Guðmundsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1983
Flokkur
Skáldsögur
Heinrich Böll. Und sagte kein einziges Wort.
Af bókarkápu:
Á ytra borði er þetta hversdagsleg saga. Sögumenn eru hjón, bláfátæk og niðurlægð, sem segja frá til skiptis. Í fáum skáldsögum hefur tekist að lýsa mannlegum kjörum, tilfinningum og reisn á jafn listrænan og sannfærandi hátt og í þessari. Böll dregur hér upp mynd sem speglar allt í senn, líf heillar þjóðar, neyð einstaklingsins og hetjudáðir hversdagsins.

Úr Og sagði ekki eitt einasta orð:
 Enn einu sinni tel ég seðlana, hina dýrmætu, óhreinu seðla. Dauf og væmin lykt þeirra gerir mig hrædda, og tíumarkaseðilinn sem Fred skuldar mér tel ég með. Hann drekkur hann út. Hann fór frá okkur fyrir tveimur mánuðum, sefur hjá kunningjum eða á einhverjum stöðum fyrir heimilislausa, af því hann þolir ekki lengur þrengslin í íbúðinni, nálægð frú Franke og hið hræðilega nábýli við Hopf-hjónin. Á sínum tíma setti íbúðaúthlutunarráðið sem byggir hverfi í útjaðri borgarinnar sig upp á móti okkur af því að Fred er drykkjumaður og vitnisburður prestsins um mig var ekki góður. Hann er reiður yfir því að ég skuli ekki taka þátt í neinni kirkjulegri starfsemi.
 En formaður þessa ráðs er frú Franke, sem með þessu jók enn á hróður sinn sem óaðfinnanleg og óeigingjörn kona. Því ef hún hefði greitt fyrir því að við fengjum íbúðina, þá hefði herbergið okkar losnað, sem frú Franke vantar einmitt fyrir borðstofu. Þannig var það henni sjálfri í óhag að leggjast á móti okkur.
 Síðan þá hef ég verið haldin ótta sem ég þori ekki einu sinni að lýsa. Sú staðreynd að hún hatar okkur svo heils hugar gerir mig óttaslegna, ég þori ekki að neyta líkama Krists, og frú Franke gerir mér það erfiðara með hverjum degi. Því að blikið í augum hennar verður stöðugt harðara. Og ég þori vart að hlýða á heilaga messu, jafnvel þótt auðmjúk fegurð messusöngsins sé eitt þeirra fáu ánægjuefna sem ég á eftir. Ég er hrædd við að sjá prestinn fyrir altari, sömu mannveruna sem ég heyri svo oft til í fundarherberginu hjá frú Franke: rödd bælds lífsnautnamanns sem reykir dýra vindla og slær um sig í hópi safnaðarkvenna sinna með heimskulegum gamansögum. Stundum skellihlæja þau hinum megin við þilið meðan ég geri allt sem ég get til að fá börnin til að þegja svo að þau trufli ekki fundinn. En nú er ég löngu hætt að hafa áhyggjur af því, ég leyfi börnunum að leika sér, og með skelfingu veiti ég því athygli að þau kunna ekki lengur að hafa hátt. Og oft á morgnana meðan sá litli sefur, eldri börnin eru í skólanum, þegar ég er að kaupa í matinn, þá laumast ég fáein andartök í kirkju þegar ekki er messa og ég finn hinn óendanlega frið sem streymir frá nærveru Guðs.
(s. 19-20)
 Einn símaklefi á járnbrautarstöðinni var laus og ég fór þar inn, skrifaði símanúmer nokkurra hótela á miða og dró upp minnisbókina til að leita að símanúmerum þeirra sem ég gæti beðið um peninga. Ég var með mikið af smápeningum í vasanum og hikaði enn andartak, horfði á úrelta og skítuga gjaldskrá sem hékk á veggjum símaklefans, notkunarreglur sem hafði verið málað yfir, og lét hikandi tvo fyrstu smápeningana í raufina. Hversu mjög sem ég reyni, hversu mjög sem mér leiðist þetta sífellda betl um peninga sem er farið að liggja á mér eins og mara, þá get ég ekki fundið til iðrunar eftir að hafa verið drukkinn. Ég valdi fyrst símanúmer þess, sem ég helst gat búist við að myndi láta mig fá eitthvað, en neitun hans myndi gera mér allt miklu erfiðara, þar sem mér var mun verr við að biðja aðra en hann. Og ég lét báða smápeningana hvíla um stund í raufinni, þrýsti nokkrum sinnum á gaffalinn og beið dálitla stund. Svitinn spratt út á enni mínu, límdi skyrtuna við hálsinn og ég fann hvað það skipti miklu máli hvort ég fengi peninga eða ekki.
(s. 42)

Fleira eftir sama höfund

Edgar Sawtelle

Lesa meira

Reiði Múlgarata

Lesa meira

Tréð í járnskóginum

Lesa meira

Norður og niður

Lesa meira

Kalli og sælgætisgerðin

Lesa meira

Ljóð í 25 poètes islandais d´aujourd´hui

Lesa meira

Risavandi

Lesa meira

Ljóð í Wortlaut Island

Lesa meira

Töfrahöllin

Lesa meira