Beint í efni

Nóttin samin í svefni og vöku

Nóttin samin í svefni og vöku
Höfundur
Eiríkur Guðmundsson
Útgefandi
Ormstunga
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Fræðibækur

Um bókina

20. bindi Ritsafns Steinars Sigurjónssonar, sem Eiríkur ritstýrði.

Í safninu eru öll áður útgefin verk Steinars auk efnis af ýmsu tagi sem ekki hefur komið fyrir almennings sjónir áður. Steinar endurritaði margar bóka sinna og þær endurritanir eru gefnar út í safninu eins og hann gekk frá þeim en þær hafa ekki áður birst á prenti.

Úr bókinni

Eldur verður laus í næstu sögu Steinars Sigurjónssonar, enda má líkja bókum hans frá fyrri hluta ferilsins við bruna, eldfima för inn í kviku mannlegrar tilvistar, þar sem tekist er af alefli á við möguleika mannsins til að ná sambandi við sjálfan sig á öld sem gengin er úr liði; brjóta af sér viðjar samfélags sem villst hefur af leið, stíflast á andlega sviðinu, og gleymt öllu í senn: söngnum í brjósti sér, ævintýrinu, og skáldskapnum. Sjálfur gerði Steinar lítið úr verkum sínum; hann sagðist löngu síðar engan veginn hafa náð máli, seint og illa fundið sína eigin rödd: Ég var framúrskarandi hallærislegur, sagði hann í viðtali árið 1984, og náði ekki jafnvægi um áratugi [...] fjandakornið ef ég tortryggi ekki sjálfa mannúðina. Samband Steinars Sigurjónssonar við sjálfan sig hefur að öllum líkindum verið langrækið og flókið. Mögulega hefur hann eina stundina álitið sig vera í háleikanum miðjum, þá næstu hefur hann litið á sig sem andlegt lík, afstyrmi sem vofast áfram og hreyfir sig þó ekki öðruvísi en aftur á bak(48). Verk hans frá ýmsum tímum bera þessari togstreitu vitni – sú hlið verka hans er ekki síður áhugaverð en sú sem lýtur að frumlegri úrvinnslu hans á veruleika hins norræna þorps. Og um erindi hans við eldinn verður ekki deilt.

Blandað í svartan dauðann er líklega sú bók Steinars sem flestir þekkja. Sagan kom út hjá Almenna bókafélaginu árið 1967 og er að stofni til sama saga og sögð var í Ástarsögu, níu árum fyrr. Þetta er sagan um fyllirí skipverja á Gamminum og framhjáhaldsraunir Kristjáns kokks. Steinar hefur þó bætt við söguna öðrum hluta sem fjallar um endurkomu skáldsins Dóra (sem í endurritun verksins hlýtur nafnið Hannes) upp á Skaga, tíu árum eftir að hann stakk undan kokknum. Fylliríið heldur áfram uns söguhetjur eru allar orðnar gegnsósa af spíra, og fuðra upp í bókstaflegum skilningi, sögunni lýkur í eldi, eða eins og það er orðað í frumútgáfunni: Ekkert meir. Bara eldur. Það fór allt til fjandans í svalli, logaði allt gaflanna á milli, – það var ekki svo lítill skepnudómurinn – það hlaut að kvikna í fyrr eða síða.(49) Hér er skrifað um fólk með sprútt í æðum og kenndir sem seint verða færðar að fullu í orð; textinn fellur þétt að veruleika bókarinnar, það leggur lykt af honum, ódaun. Bókin lyktar af öllu í senn: spritti og golsluddi, grút og hænsnaskít. Söguhetjur opinbera viðkvæmni sína en aðeins eitt augnablik, svo heldur drykkjan áfram. Sem fyrr lítur kvenfólkið ekki við hetjum hafsins, sem rausa út í eitt, frávita af drykkju, um hárfína lúxushornasa í landi, dúnmjúka flissara, lérefts- og blúndukaupmenn, sem þekkja ekki lífið. Lífslygin hefur heltekið hetjurnar, þær vita af henni en megna ekki að brjótast úr viðjum hennar: Kvað er þá hægt að gera? Drekka eins og vant er, drekka sig inní þrumandi fyllirí, eins og guðsfædd volæðisleg skepna.(50)

(57-9)

Fleira eftir sama höfund

Tilbrigði við Tígrisdýr eftir Frans Kafka

Lesa meira

Fáein orð um fjórar skemmdar sítrónur, segulbandsspólur og svefnlausar nætur

Lesa meira

Saga Bræðraborgarstígsins / símskeyti

Lesa meira

Hér og nú 1999: Ísbjörn í morgunsárið

Lesa meira

Innkaupaferð, úlfur og vindlakassi

Lesa meira

39 þrep á leið til glötunar

Lesa meira

Engill tímans: til minningar um Matthías Viðar Sæmundsson

Lesa meira

Skáld um skáld

Lesa meira