Beint í efni

39 þrep á leið til glötunar

39 þrep á leið til glötunar
Höfundur
Eiríkur Guðmundsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina:

Vestfirðingur með skaddað hné og álitlegustu lífeyrisréttindi ákveður, þvert á öll skynsamleg rök, að kveðja fósturjörðina í blóma vorsins og fljúga til Mexíkó. Hann er vart farinn að venjast hitanum og hinu einkennilega suðræna samfélagi þegar lögreglan fangelsar hann fyrir óljósar sakir. Er nema von að lesandinn spyrji hvers vegna maðurinn hafi tekið sig svona upp, slitið sig frá lífsgleðinni í íslenskum fjölmiðlum, menningarlífinu í Perlunni og kaupmennskunni í Smáranum? Hvernig honum hefði dottið í hug að snúa baki við forsetahjónunum, ríkisstjórninni, áramótaskaupinu, geitungnum á svölunum, meira að segja sinni heittelskuðu vinkonu fyrir vestan?

Úr 39 þrepum á leið til glötunar:

En, mín elskulega, þegjandi læt ég, sæfarinn, í ljóðum ljóma þitt heiti, og líklega sat ég heilt kvöld nötrandi af söknuði undir söng sem barst alla leið frá Brasilíu. Framundan var sumarnótt, rósir opnuðust og lokuðust á víxl, álfar stungu sér til sunds, allar fjólur voru bláar. Ég sat undir stærsta sveppinum í garðinum, aðeins fáeinir metrar til hafs. Skemmtiferðaskip lónandi úti á flóanum, ég rétti út höndina og hélt skyndilega á vínglasi. Í sömu andrá: fiðluleikari í skipshljómsveitinni að biðja um fim mínútna pásu til þess að horfa á sólsetrið. Ég man ekki hvar ég stal þessu.

Og, mín elskulega vinkona, my lady of the various sorrows, á þessum dögum var svo lítill munur á sólsetri og sólarupprás að öðru hvoru megin við miðnættið mátti heyra Guð hrópa hollí og svo sagði einhver hú, og þetta ómaði um gjörvalla veröldina og endurtók sig dag eftir dag. Nú væri rétt að vera bæði með skammbyssu og trékylfu, hugsaði maður, eins og barn í gamalli skáldsögu. Það var sumar og Valdi í geisladiskabúðinni við Vitastíg sagði Takk Sir þegar maður rambaði á rétta skífu eða klámblað á sérstöku sólartilboði. Á hverri einustu umferðareyju í Reykjavík var maður með rafknúinn ljá, líklega á vegum Umferðastofu, til að minna á að við lifum ekki að eilífu. Það þurfti raunar ekki til - söngurinn frá Brasilíu var óskiljanlegur en bar með sér ógurlegan trega sem minnti á andlátsfregn, en um leið undarlega gleði sem virtist ríma vel við miðnætursólina yfir vesturbæ Reykjavíkur, um hásumar. Og þarna var hafið, mín elskulega, og þarna var kertastjakinn og síðan þessi rödd frá Brasilíu og það var eins og söngkonan hefði mig í huga. Ég sá rauða kjóla og tónarnir frá syntesæserunum minntu á eitthvað mjög reglulegt, velbónað parkett frá Finnlandi. Ég sá fyrir mér kirkjugarða og stöðumælasektir, háreist timburhús með þakgluggum víðs vegar um bæinn. Sólin speglaðist í gluggum blokkanna, hver einasta nóta sem barst frá píanóinu var tré sem teygði sig til himins.

(71-72)

Fleira eftir sama höfund

Tilbrigði við Tígrisdýr eftir Frans Kafka

Lesa meira

Fáein orð um fjórar skemmdar sítrónur, segulbandsspólur og svefnlausar nætur

Lesa meira

Saga Bræðraborgarstígsins / símskeyti

Lesa meira

Hér og nú 1999: Ísbjörn í morgunsárið

Lesa meira

Innkaupaferð, úlfur og vindlakassi

Lesa meira

Engill tímans: til minningar um Matthías Viðar Sæmundsson

Lesa meira

Skáld um skáld

Lesa meira

Magnús Ólafsson

Lesa meira