Beint í efni

Bergnuminn

Bergnuminn
Höfundur
Eysteinn Björnsson
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
1989
Flokkur
Skáldsögur

Úr Bergnuminn:

 Það stóð heima. Beikonbræðurnir sátu þegar að snæðingi þegar Halldór kom inn í salinn. Siggi og Gunni voru þarna líka, Siggi kominn í helgareinkennisbúninginn, dökk föt, hvíta skyrtu og svarta slaufu. Hann virtist ekki vitund eftir sig. Hann drakk heldur aldrei frá sér vitið. Þeir sem það gerðu entust ekki lengi í þessum bransa.
 Gunni var að venju niðursokkinn í eitthvert dagblaðið. Það var meira hvað maðurinn gat lesið af þessum dagblöðum. Hann leit nú upp og horfði spyrjandi á Halldór. Halldór kinkaði kolli.
 Þeir Beikonbræður virtust bara hafa beðið eftir Halldóri. Þeir voru búnir að borga herbergið, spilin voru komin á borðið og kaffikönnur og bollar stóðu á litlum borðum til hliðar.
 Það er naumast, hugsaði Halldór, nú á að taka það. Hann fann ekki til neinnar reiði eða hefndarþorsta eins og í gær. Hann langaði aðeins til þess að byrja að spila. Þetta hafði verið alveg rétt hjá Gunna, hann var í afleitu ástandi til spilamennsku í gær. Hann var heppinn að fara ekki verr út úr þessu.
 Þegar þeir byrjuðu að spila fann Halldór að hann var í góðu jafnvægi. Allar áhyggjur og efasemdir um lífið utan spilaherbergisins voru horfnar eins og dögg fyrir sólu. Hann fann aðeins þessa ólýsanlegu tilfinningu í hvert skipti sem hann tók upp spilin - gæfa eða glötun - kvöl eða sæla. Fiðringurinn læstist um hann allan eins og eiturlyf. Halldór hafði stundum reynt að lýsa þessari tilfinningu fyrir öðrum. Hann var löngu hættur því. Það var bara tímaeyðsla.
 Hvað um það, honum leið dásamlega núna, það var aðalatriðið. Blóðið streymdi um æðar hans af miklum krafti, sjón hans var hnífskörp, hreyfingarnar öruggar og hugsunin skýr. Hér á ég heima, hér líður mér vel, hugsaði Halldór. Allur efi var horfinn og fullvissa komin í staðinn. Hann var í vímu, hann vissi það vel. Það skipti engu máli. Ekkert, ekkert skyldi nokkru sinni komast upp á milli hans og spilaborðsins.
 Þeim félögum, Halldóri og Gunna, gekk vel strax frá byrjun. Þeir voru heppnir með spilin og nýttu þau vel. Halldór hafði meira að segja stolist „heim“ með tvö geim sem vörnin átti að geta banað. Gunni hafði litið til hans viðurkenningaraugum í seinna skiptið eins og hann vildi segja: Það er munur á spilamennskunni hjá þér í dag og í gær.

(s. 22-23)

Fleira eftir sama höfund

Dagnætur

Lesa meira

Stelpan sem talar við snigla

Lesa meira

Faðir og sonur

Lesa meira

Jónsmessunótt

Lesa meira

Logandi kveikur

Lesa meira

Fylgdu mér slóð

Lesa meira

Í skugga heimsins

Lesa meira

Snæljós

Lesa meira

Út í blámann

Lesa meira