Beint í efni

Eysteinn Björnsson

Æviágrip

Eysteinn Björnsson fæddist á Stöðvarfirði 9. janúar 1942. Hann fluttist með foreldrum sínum til Siglufjarðar 1954, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1961 og lagði síðan stund á nám í íslensku, ensku og landafræði við Háskóla Íslands til 1967. Hann nam enskar bókmenntir við Trinity College í Dublin haustið 1984, sótti námskeið í íslenskum og enskum bókmenntum í Háskóla Íslands 1985 og lauk Cand Mag prófi í enskum bókmenntum þaðan haustið 1988. Eysteinn kenndi við Laugalækjarskóla, Ármúlaskóla og Fjölbrautarskólann í Breiðholti til 1991. Hann hefur skrifað greinar og pistla fyrir blöð og tímarit, samið handrit og haft umsjón með sjónvarps- og útvarpsþáttum.

Fyrsta bók hans, skáldsagan Bergnuminn, kom út árið 1989 og síðan hefur hann sent frá sér fleiri skáldsögur og ljóðabækur, auk þess sem smásögur og ljóð eftir hann hafa birst í safnritum og tímaritum og verið flutt í útvarpi. Eysteinn hefur hlotið viðurkenningar fyrir smásögur sínar og ein þeirra, „The Whale“, sem hlaut önnur verðlaun í alþjóðlegri bókmenntasamkeppni , hefur birst í erlendu safnriti.