Beint í efni

Snæljós

Snæljós
Höfundur
Eysteinn Björnsson
Útgefandi
Tindur
Staður
Reykjavík
Ár
1996
Flokkur
Skáldsögur

Úr Snæljósi:

Út á haf. Himinn. Haf. Jörð. Hnöttur. Hann kipptist við. Reyndi að loka á þessa mynd sem þrýsti sér inn í vitund hans.
 Hnattlíkan.
 Hnattlíkanið á skrifstofu föður hans. Blágrænt Kyrrahafið með öllum þessum eyjum. Augu hans límdust við örsmáa deplana á kortinu. Sáu ekkert annað. Eyjarnar með pálmatrjám og konum í strápilsum.
 - Andstyggileg ónáttúra. Hefði aldrei trúað. Drengur eins og þú. Alinn upp á góðu heimili. Þyngra en tárum taki fyrir hana móður þína. Hvað heldurðu að fólk segði? Hvaða skýringu geturðu gefið á svona framferði? Ertu mállaus, drengur? sagði faðir hans hátt og hranalega. Og hengdu ekki svona hausinn. Viltu gjöra svo vel að svara mér.
 Hann tók á öllu sem hann átti til og tókst að lokum að slíta augun af hnattlíkaninu. Horfði á vegginn að baki föður síns og sagði lágt og seinlega:
 - Ég get ekki útskýrt þetta. Það - það -
 Hann þagnaði.
 - Það hvað? Komdu þessu út úr þér, drengur.
 - Ég veit það ekki.
 - Veistu ekki hvað?
 - Veit ekki neitt um þetta. Veit ekki af hverju.
 - Gerirðu þér grein fyrir hvað getur hlotist af svona löguðu?
 Hann andvarpaði, hengdi höfuðið á ný og festi augun á blágrænum víðáttum Kyrrahafsins.
 Það varð löng þögn.
 - Jæja. Það þýðir greinilega ekkert að tala um þetta við þig. Það verður þá svo að vera. Við mamma þín höfum ákveðið að senda þig í heimavistarskóla. Við erum viss um að það sé ykkur báðum fyrir bestu. Fyrir bestu. Fyrir bestu, ómaði með undarlega holum hljóm í huga hans. Ungar stúlkur í strápilsum stigu villtan dans. Þær voru berar að ofan. Brjóstin slettust og dingluðu upp og niður. Fram og aftur. Upp og niður. Brjóstin -
 - Er búinn að tala við kunningja minn sem er skólameistari þarna fyrir norðan. Hann ætlar að taka við þér strax eftir helgi.
 Stúlkurnar voru dökkar af sólinni. Það skein í hvítar tennurnar. Hárið flaksaðist í vindinum. Hinn villti taktur trumbunnar varð enn hraðari. Fæturnir hömuðust í sandinum. Litlar tærnar þyrluðu honum í allar áttir. Blómsveigarnir um hálsana ilmuðu. Brimgnýr í fjarska.
 - Áður en meira illt hlýst af þessu. Vonandi hefur ekkert óbætanlegt tjón orðið enn. Ykkur báðum fyrir bestu. Lærið af þessu. Finnið ykkur annan og betri farveg. Jafnar sig allt. Þroskandi að fara í heimavistarskóla. Góður skóli. Get borið um það.
 Stúlkurnar. Strápilsin. Brimgnýrinn. Allt hvarf. Ekkert nema grængolandi djúp þar sem hann snerist og veltist hring eftir hring.
 Hann stundi.
 - Gerðu það, pabbi. Ekki senda mig burt. Ekki núna.

(s. 99-100)

Fleira eftir sama höfund

Dagnætur

Lesa meira

Bergnuminn

Lesa meira

Stelpan sem talar við snigla

Lesa meira

Faðir og sonur

Lesa meira

Jónsmessunótt

Lesa meira

Logandi kveikur

Lesa meira

Fylgdu mér slóð

Lesa meira

Í skugga heimsins

Lesa meira

Út í blámann

Lesa meira