Beint í efni

Lífsloginn

Lífsloginn
Höfundur
Björn Þorláksson
Útgefandi
Tindur
Staður
Akureyri
Ár
2005
Flokkur
Skáldsögur

Af bókarkápu:

Lífsloginn lýsir þremur vikum í lífi Loga Stefánssonar, menntaskólakennara á Akureyri. Hann er einn á báti, drykkfelldur og leitar fróunar hjá sautján ára gömlum nemanda sínum. Lífið tekur nýja stefnu þegar grunur kviknar um að ástkonan unga sé ekki bara nemandi hans.


Úr Lífsloganum:

3

Mánudagar eru eins og svartir sokkar. Undarlega algengir. Engum líkaði við þá. Allir kepptust við að komast úr þeim sem fyrst.

Hann hefði tilkynnt veikindi ef honum hefði ekki liðið svona ila. Hausverkurinn, brjóstsviðinn, þreytan í öxlunum, meira að segja sjónin var aðeins snefill af sjálfri sér. Samt skyldi hann á vætur. Drykkja varð fyrst að vandamáli þegar hún kostaði menn vinnuna. Hann var óheppinn að vera svona veikur. Vegna timburmannanna yrði hann að mæta. Hins vegar var allt í lagi að þykjast veikur við og við þegar ekkert amaði að. Svoleiðis daga notaði hann til að daðra við drauminn um að einhverju sinni næði hann að vinna bókmenntalegt þrekvirki.

Honum gekk illa að finna rétta hitastigið í sturtunni. Hann fann ekki blómailminn af sápunni. Þegar baðinu lauk reyndist handklæðið ekki hlýtt og notalegt heldur rakt og kalt. En hann kláraði að þurrka sér. Skvetti rakspíra á hálsinn og skjögraði á svörtum sokkum og nærbuxum inn í eldhús. Silfurskotta skaust yfir gólfið þegar hann kveikti ljósið.

Þið konur norðursins eruð eins og silfurskottur, elskurnar mínar. Veistu af hverju, elskan? Ha? Vegna þess að í rökkrinu stígiði dansa ykkar en þegar Logi geimgengill kemur og kveikir eldinn skjótisti í felur. Haha, Logi geimgengill. Nú vantar bara Svarthöfða! Maður er nú líka inni í poppmenningunni. Helvítis lágmenningunni. Ertekki impresst? En þú ert öðruvísi en hinar dömurnar, er það ekki? Má bjóhóða þér Grand Marníi. Grand Marníi sko, ekki Grand Marníer. Bara sveitamenn og aular segja Grand Marníer, Hélas! Ég er búin með retturnar. Frakkar segja sko Grand Marníi. Eins og sommelíi - ekki sommelíer. Mais, non madamoiselle - pas de tuot! Heyrðu elskan, ég kannast við þig er það ekki? Fjandi ertu flott - Heitirðu Helena? Byrðu í Tróju? Ertu ein á ferð? Na? Nú, er það nokkur fyrirstaða? Snæbjörn hjá Samherja? Quel dommage! Ertu konan hans Snæbjörns í Samherja? Er það þitt meginhlutverk í lífinu að vera konan hans Snæbjörns í Samherja? Fari Samherji til helvítis og Snæbjörn má fara líka per ce! Nei, ekki fara, ekki fara, hvaða viðkvæmni er þetta, svona eruði allar þessar kellingar, viljið bara einhverja fokkíng Hadda og Snæbirni, fisk og aftur fisk á sama tíma og enginn kann að bera fram Grand Marníi. Það vantar alla fágun hérna, hver leyfir sér að kalla Akureyri menntabæ, þetta er þorp aumingjanna ... enn í timburmönnum eftir KEA-droppið, blúsað þorp og hor og slor. Heyrðu, þarna er önnur. Hei beibí, dáldill Chartreuse færi nú vel við grænu blússuna þína. Ha?

Hann slökkti ljósið. Læddist inn í geymslu og náði sér í nætursjónauka. tiplaði að eldhúsgættinni og starði þaðan inn í myrkrið. Kvikindið var hvergi að sjá. Hann átti greinilega í höggi við undirförulan og ótútreiknanlegan andstæðing. Yrði að beita herkænsku. Skyndiárás.

Mogginn var nýdottinn inn um dyralúguna. Hann tók blaðið upp og vafði því í barefli með yfirveguðum kulda. Ýtti á rofann og stökk inn í ljóshafið með öskri. Hávaðinn hefði kannski lamað mann úr hræðslu en silfurskottan þurfti meiri ógn til að gefast upp. Hún hafði leitað skjóls undir gulum trékolli en hentist af stað við lætin. Svo virtist sem henni tækist að komast í skjól undir eldavélina en á síðustu stundu henti skáldið sér á gólfið og lét ritvopnið vaða af trylltu afli. Það var ólýsanleg tilfinning að sjá óvininn kremjast niður í gólfdúkinn. Hann tók ekkert eftir að vör hafði sprungið í atlögunni.

(16-8)

Fleira eftir sama höfund

Rottuholan

Lesa meira

Villibörn

Lesa meira

Mannorðsmorðingjar?: Faglegar og persónulegar pælingar um stöðu fjölmiðla á Íslandi

Lesa meira

Heimkoman

Lesa meira