Beint í efni

Villibörn

Villibörn
Höfundur
Björn Þorláksson
Útgefandi
Tindur
Staður
Akureyri
Ár
2007
Flokkur
Skáldsögur

Af bókarkápu:

Í Villibörnum er tekist með dramatískum hætti á við eina stærstu spurningu íslensks samtíma en aldrei er langt í kímnina. Hér er fjallað um fólk í sveit sem stendur óvænt frammi fyrir nýjum tækifærum. En þau gætu kostað sitt. Ekki er allt sem sýnist.

Sjá umfjöllun Úlfhildar Dagsdóttur um bókina hér á bókmenntavefnum.


Úr Villibörnum:

4

Klukkan rúmlega hálftvö að nóttu raskar hringing ró Doktorsins. Auðbjörn Finnsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur er í símanum og tilkynnir án málalenginga að einum sjúklingi spítalans hafi snöggversnað.

- Þú verður að koma eins og skot, skipar hún og leggur á.

Undir venjulegum kringumstæðum hefði Doktorinn bölvað og sent undirmann sinn á sjúkrahúsið. Hann sinnir helst bara sjúklingum sem hafa vit á að veikjast á skrifstofutíma. En þetta útkall er öðruvísi en önnur. Úje.

Samkvæmt venju leyfir Doktorinn sér að liggja í bælinu um stund í stað þess að stökkva strax af stað eins og húsdýr. Ögra forlögunum pínulítið. Það er svo assgoti spennandi.

Nýja kærastan liggur við hlið hans. Hún hefur ekki vaknað við hringinguna. Hann rennir fingri yfir varir hennar. Þær eru fagrar, það vantar ekki, en hafa ekki nokkru sinni sagt eitt einasta orð af viti. But then again þá er vit dálítið dottið úr tísku. Vit á engan séns í Armani-dressin, Gucci-töskurnar, títan-dræverana og bótoxið. Allt snýst í dag um gervivarir, gervibrjóst, gervisköp, fitusog, typpastækkanir, strekkingar og náttla nýju gagnvirku sjónvarpstölvurnar. Þau eru komin með gervigreind og styttist í að þau fái bæði púls og andardrátt. Þegar það verður þarf að kalla til lækna til að gera við þau ef þau bila en ekki bara mennina. Ó, þú yndislega veröld. Úje.

Doktorinn hlær og vindur sér fram úr rúminu. Úti bíður Porsinn sem skutlar honum á 6 mínútum tæpum frá hallarhverfi Álgarðsins að sjúkrahúsinu. Endalausir kerskálar blasa við til beggja handa en það getur verið snúið að komast leiðar sinnar innan húss. Sjúkrabílar hafa ítrekað lent í vandræðum inni í álverinu vegna geislavirkni. Það hefur drepist á þeim í neyðarflutningi þar sem afsegulsviðið þarna inni er alltof sterkt. Svo eru blóðnasir, hvimleiðiur og algengur fylgifiskur hjá starfsmönnum en úje, so what?! Það eru tvær hliðar á hverju máli og kostirnir við risaálver eru svo margir að það tekur því ekki að telja þá alla upp.

Kannski óskaði Doktorinn ekki beinlínis sjálfur börnunum sínum þess að vinna þarna, en hvar væri fjórðungurinn staddur án þessa álvers? Það væri ekkert alvöru þéttbýli til, engin þjónusta í nágrenninu. Menn væru étandi skítinn úr sér til sjávar og sveita á víð og dreif en hefðu þeir efni á bótox? Óóóóóónóóóó.

Sportbíllinn parkerar sér sjálfur fyrir framan spítalann, Doktorinn smellir álkorti í lesara og dyr opnast. Það ískrar í támjóum skónum þegar hann arkar eftir spítalagöngunum. Þetta eru ekta krókódílaskór.

Ausa yfirhjúkrunarfræðingur bíður eftir honum og gefur stuttan rapport, fremur þurrkuntuleg í framan. Ljótu mistökin að hafa dýft í hana en nóg um það. Hann er ekki mættur akút um miðja nótt vegna Ausu lausu heldur vegna Heklu Óskarsdóttur lungnasjúklings. Heklunnar sem var einu sinni virkasta mótmælaeldstöð landsins og framkallaði hvert sprengigosið á fætur öðru gegn stóriðjustefnunni. A living legend. Úje.

(17-8)

Fleira eftir sama höfund

Lífsloginn

Lesa meira

Rottuholan

Lesa meira

Mannorðsmorðingjar?: Faglegar og persónulegar pælingar um stöðu fjölmiðla á Íslandi

Lesa meira

Heimkoman

Lesa meira