Beint í efni

Rottuholan

Rottuholan
Höfundur
Björn Þorláksson
Útgefandi
Tindur
Staður
Akureyri
Ár
2003
Flokkur
Skáldsögur

Af bókarkápu:

Í Rottuholunni fer lesandinn í sálfræðilega spennuferð með Jens Blórdal, satarfsmanni í vetnisverksmiðju, sem sér drauga í hverju horni og kannski ekki að ástæðulausu. Hann virðist ekki hafa neitt hlutverk í lífinu og er í sífelldri leit að fortíð sinni, sérstaklega móður sinni, sem hann kynntist aldrei. Hröð atburðarás einkennir þessa meinfyndnu sögu sem lætur engan ósnortinn. Hún er bæði öðruvísi ástarsaga og lífsreynslusaga. Kímnigáfan er þó aldrei fjarri enda ekkert svo sárgrætilegt í tilverunni að ekki megi brosa að því á góðum degi.


Úr Rottuholunni
:

20

Jens varð himinsæll þegar hann uppgötvaði að hann hafði sofið aðfangadag af sér. Klukkan var korter gengin í sjö að kvöldi og daufir tónar Langholtskirkjukórs frá útvarpi nágrannans voru það eina sem minnti á jólin.

Augu hans vöndust rökkrinu en þegar hann sá engin um merki um vinkonu sína dreif hann sig út. Gekk inn í stofu og kveikti í vindlingi. Kveikti á tölvunni og kannaði hvort hann þekkti einhvern í briddsinum á Netinu.

Svo reyndist ekki vera fyrir utan nokkra Pólverja, sem hann hafði einu sinni spilað við en þeir virtust fullir eða eitthvað ruglaðir. Fóru strax að senda honum jólakveðjur, broskalla og upprópunarmerki þannig að hann var fljótur að logga sig út og slökkva á vélinni.

Drap í sígarettu númer tvö og fann fyrir svengd. Opnaði ísskápinn en uppgötvaði þá að hann hefði steingleymt að birgja sig upp fyrir jólin. Það var ekkert sem minnti á stórhátíð í ísskápnum nema þá helst hálfur lítri af rjóma sem Jens ákvað að þeyta.

Hann átti líka stóra dós með niðursoðnum perum og þegar hann opnaði hana freistaðist hann til að hugleiða hvaða mat vinnufélagarnir fyrrverandi væru að snæða í vetnisverksmiðjunni. Hann sá fyrir sér svínakjötið, waldorfsalatið og jólablandið meðan hann hámaði í sig perurnar og slafraði í sig rjómanum. En hvers konar dónaskapur var þetta? Átti ekki að bjóða gesti hússins að taka þátt í veislunni?

Rottan tísti glaðlega þegar Jens leit inn í geymsluna. Þau horfðust í augu um stund og áður en Jens bauð henni upp á hátíðarkvöldverð og auðvitað þáði hún boðið. Það var ekki nóg með að rottan fengi rjóma og perur heldur setti hann líka hnetuost á disk fyrir framan hana og næstu mínútur snæddu þau jólamáltíðna í heilagri þögn. Rottan og maðurinn Jens.


21

stífur
milli læranna
og rakur á enni
undir
mömmu
sem starir
út í tómið
fyrir ofan
höfðagaflinn
og segir
aldrei neitt

skrifar aldrei staf
hringir aldrei orð
helvítis mamma
elsku
fallega mamma
helvítis
elsku mamma

(46-7)

Fleira eftir sama höfund

Lífsloginn

Lesa meira

Villibörn

Lesa meira

Mannorðsmorðingjar?: Faglegar og persónulegar pælingar um stöðu fjölmiðla á Íslandi

Lesa meira

Heimkoman

Lesa meira