Beint í efni

Við enda regnbogans

Við enda regnbogans
Höfundur
Helga Möller
Útgefandi
Fróði
Staður
Reykjavík
Ár
1999
Flokkur
Barnabækur


„Þau hjóluðu niður í hlíðina sem sneri út að Nauthólsvíkinni, lögðu hjólunum upp við stóran stein og fóru að leita að góðum samastað fyrir músina. Þau gengu inn í fallegt rjóður sem var nær alveg hulið trjám á alla vegu.
„Hérna er góður staður fyrir mús,“ sagði Villa og settist á stein. „Hér getur hún búið sér til holu.“
Þorra og Önnu Möggu leist líka vel á staðinn. Þau krupu niður og röðuðu ostbitunum skipulega upp við stofninn á háu furutré. Villa dró krukkuna með músinni upp úr hálsmálinu á úlpunni sinni, losaði pappírinn frá opinu og lagði krukkuna svo varlega á jörðina rétt við ostinn.
Krakkarnir störðu spenntir á músina, en hún hreyfði sig ekki.
„Kannski langar hana ekkert að búa hérna,“ sagði Villa áhyggjufull.
„Bíddu, leyfðu henni að átta sig.“ Þorri tók einn ostbitann upp og setti inn í krukkuopið. Músin var augljóslega ekki svöng því hún sýndi ostinum engan áhuga. Hún hnipraði sig saman innst í krukkunni og þefaði út í loftið. Hún var líklega pakksödd eftir allt átið heima í herbergi Villu, enda hafði hana ekki skort æti.
„Kannski er hún búin að fá leið á osti,“ sagði Anna Magga.
„Við getum allavega borðað nestið okkar.“ Þorri seildist eftir nestistöskunni.
Stelpurnar voru til í það. Brauðsneiðarnar voru drifnar fram og krakkarnir átu af bestu lyst.
Ávaxtasafinn rann líka ljúflega niður og brátt voru þau komin niður í hálfan kexpakkann.
Þau höfðu alveg gleymt að gæta að músinni.
„Músin!“ æpti Villa. „Hún er horfin.““

(s. 52-53)

Fleira eftir sama höfund

Puntrófur og pottormar

Lesa meira

Prakkarakrakkar

Lesa meira

Leiksystur og labbakútar

Lesa meira