Beint í efni

Sigrún og Friðgeir: Ferðasaga

Sigrún og Friðgeir: Ferðasaga
Höfundur
Sigrún Pálsdóttir
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur

um bókina

Haustið 1940 lögðu tveir ungir íslenskir læknar, hjónin Friðgeir Ólason og Sigrún Briem, af stað áleiðis til Bandaríkjanna í sérnám. Eftir fjögurra ára vist þar og í Kanada snúa þau aftur til Íslands; hann með doktorspróf frá Harvard, hún rétt búin að ljúka kandídatsári sínu með vinnu á barnaspítölum. Dvölin í Ameríku hafði verið ævintýri líkust og svalað miklum metnaði þeirra en það sem öllu hefur breytt og mótað þau meira en nokkur önnur reynsla á þessu langa ferðalagi er fæðing og uppvöxtur þriggja barna þeirra. Sigrún og Friðgeir eru sannarlega tákn um bjartar vonir íslenskra læknavísinda þegar þau stíga um borð í Goðafoss haustið 1944 en þau eru líka foreldrar, sannfærð um hvert mikilvægasta hlutverk þeirra er og verður í náinni framtíð.

Sigrún og Friðgeir – Ferðasaga er saga úr síðari heimsstyrjöldinni sem snertir marga ólíka þætti í sögu Íslands á 20. öld, en inn í hana sogast líka nánast óteljandi atburðir úr sögu bandarísks samfélags. Í bókinni segir meðal annars frá kynnum Sigrúnar og Friðgeirs af fátækt og ofbeldi í stórborgum landsins, s.s í Harlem-hverfi New York-borgar, dægurmenningu og uppgangi valdamikilla stofnana og fyrirtækja í bandarísku samfélagi, auðsöfnun og hinum síauknu áherslum á framfarir á sviði vísinda og tækni. Því líf þeirra hjóna í Ameríku var ekki bara bundið heimi læknavísinda, heldur snerist um heimilisrekstur, framboð nýrra heimilistækja og eftirspurn eftir heimilishjálp í stríði. Og saga þeirra flækir svo sannarlega þá mynd sem dregin hefur verið upp af hlutverki húsmæðra á fimmta áratugnum í Bandaríkjunum, viðhorfum til svartra vinnukvenna, samskiptum kynjanna og hlutverki feðra í barnauppeldi.

Sigrún og Friðgeir – Ferðasaga byggir á bréfum og dagbókum sem þau hjón héldu frá því að þau sigldu til Bandaríkjanna haustið 1940 og þar til þau sneru heim til Íslands frá New York haustið 1944. Höfundur notar einnig fjölda ljósmynda til að draga upp senur og dýrmæt augnablik í lífi fjölskyldunnar en frásögnin af atburðarrásinni um borð í Goðafossi eftir að tundurkeyti frá þýskum kafbát skellur á honum er hér einnig sögð frá nýju sjónarhorni með Sigrúnu og Friðgeir, og börn þeirra þrjú í brennidepli.

úr bókinni

Þau búa í tveimur herbergjum á Riverside Drive og deila eldhúsi með öðrum. Herbergin snúa í suður út að Hudson-ánni. Þegar Sigrún horfir út um gluggann finnst henni sem hún horfi af Tjarnargötu í Reykjavík því að framan við húsalengjuna eru engar byggingar. Bara gata, svo garðurinn - Riverside Park - og handan við rennur áin. Garðurinn er víða lagður stéttum og stígum og þar safnast dúfurnar saman, og allt í kringum Óla sem stendur þar með brauð í poka. Hann er í ullarfrakka utan yfir stuttbuxnadressinu, hnésokkum og leðurskóm með spennu um ökklann. Þegar hann hefur tæmt úr pokanum sest hann upp á þríhjólið sitt, teygir sig niður eftir akarni sem liggur á stéttinni, og kastar varlega í átt til íkornans áður en hann tekur stefnuna niður eftir, og Sigrún á hæla honum undir nöktum álminum. Ferðinni er heitið í Macy's að skoða jólagjafir og skraut. Úrvali er yfirþyrmandi og Óli starir á dótið. Hann biður ekki um neitt en horfir björtum og bláum augum á silkislopp sem Sigrún er að kaupa handa Friðgeiri í jólagjöf. Biðin í röðinni eftir Santa Claus tekur hálftíma. Jólasveinninn tekur í höndina á Óla, segir eitthvað á ensku, og gefur honum sparibyssu til að safna í peningum fyrir jólagjöfum. Svona líða dagarnir í desember og Sigrúnu "finnst dásamlegt að vera komin hingað og gera ekkert nema ... hugsa um þetta litla heimili."

Einmitt. Ekkert annað og í eigin heimi á sunnudegi með ekkert útvarp þegar útsending er skydilega rofin í leik Giants og Dodgers; hljómsveit Sammys Kaye þagnar á annarri rás og útsending á Eftirlitsmanni Gogols stöðvast á þeirri þriðju. Í eigin heimi og ekki úti á Rockefeller-torgi þegar fregnmiðar falla í hundraðatali úr höfuðstöðvum Time og Life niður til fjöldans sem stendur á skautasvellinu eða bíður í röð fyrir utan Radio City til að sjá glænýja Suspicion Hitchcocks með Joan Fontaine og Cary Grant í aðalhlutverkum. Og ekki inni í Carnegie Hall þegar áhorfendur rísa úr sætum með lófataki fyrir landflótta Pólverjanum Arthur Rubinstein, sem stendur á sviðinu og hneigir sig eftir að hafa lokið við að leika píanókonsert númer eitt í e-moll eftir Frédérick Chopin um leið og kynnir CBS-útvarpsstöðvarinnar gengur hröðum skrefum inn á sviðið og ávarpar salinn með orðum, sem eftir augnabliksþögn verða þess valdandi að Fílharmóníusveitin í New York byrjar að leika bandaríska þjóðsönginn sem aftur leiðir til þess að tónleikagestir bresta í söng og hugsa með sér að nú verði veröldin aldrei söm. Það er engu líkara en að Sigrún hafi ekki farið út úr húsi þennan dag því þegar öllu þessu var lokið flaug fréttin hratt út um alla borg en ekki alltaf örugglega því að sumum barst hún aðeins sem óskýrt hróp út um stofuglugga eða af svölum, öðrum sem frétt þess eina blaðs sem prentað var síðdegis þennan dag og ekki allir tóku trúanlegt: New York Enquirer. En eftir að þúsundir manna höfðu safnast saman á Times Square, þar sem fréttin ferðaðist á ljósaskilti í kringum New York Times bygginguna, varð hún brátt á allra vörum. Og á hádegi mlrguninn eftir, mánudag, varð hún staðreynd úr munni Bandaríkjaforseta sem ávarpaði þjóðina svo að lífið í borginni stöðvaðist og allir lögðu við hlustir alls staðar þar sem útvarp var að finna, inni á heimilum nágranna, á veitingahúsum og börum og í leigubílum: "A date which will live in infamy". Fréttin var orðin saga. Japanir höfðu ráðist á flotastöð Bandaríkjamanna í Pearl Hrbour á Hawaii og Bandaríkjamenn höfðu lýst yfir stríði við Japani. Stríðsyfirlýsing Þjóðverja og Ítala á hendur Bandaríkjamönnum var gefin út daginn eftir. Óttinn var smám saman að síast inn og ekki hafði La Guardia borgarstjóri, sem nú gegndi einni starfi forstjóra almannavarna ríkisins, beinlínis reynt að róa mannskapinn á sunnudagssíðdegi þegar hann hrópaði í míkrófón WNYC-útvarpsstöðvarinnar að New York væri skotmark, ekki væri spurning hvort heldur hvenær ráðist yrði á borgina, að íbúar hennar yrðu að herða sig upp og vera viðbúnir því sem hann kallaði "murder by surprise". En Sigrún nefnir ekkert af þessu í bréfi til foreldra sinna sem dagsett er þremur dögum eftir árásina. Er hún að hlífa þeim eða getur hún hreinlega ekki sett atburðinn í samhengi við sín eigin örlög? Eða er hún bara fjarverandi í samfélagi sem sagan segir að hafi verið snúið á hvolf? Frávikið eina í stóru sögunni?

(s. 95-97)

 

Fleira eftir sama höfund

Delluferðin

Lesa meira

History. A Mess

Lesa meira

Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847-1917

Lesa meira