Beint í efni

Kompa

Kompa
Höfundur
Sigrún Pálsdóttir
Útgefandi
Smekkleysa
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Skáldsögur

um bókina

Fræðimaður, ung kona, verður fyrir smávægilegri truflun inni á handritasafni við rannsókn á 365 ára gamalli dagbók. Afleiðingarnar eru afdrifaríkar en koma þó ekki í ljós fyrir en sex árum síðar þegar konan áttar sig á að rannsóknartilgáta hennar hefur í öll þessi ár verið byggð á röngum forsendum, og að ritgerðin, heilar 600 síður, er að öllum líkindum þvættingur frá upphafi til enda.

Í örvæntingu sinni grípur hún til þess eina ráðs sem virðist geta bjargað henni úr skelfilegum aðstæðum, en verknaðurinn eykur bara á hremmingar hennar og áfallið í kjölfar þessa alls verður til þess að gömul veikindi taka sig upp. Buguð og í fræðilegri sjálfheldu frestar hún námslokum og fylgir eiginmanni sínum heim til Íslands.

Þar burðast hún með leyndarmál sitt og laskaða sjálfsmynd gagnvart fjölskyldu og vinum, og tekst á við afleiðingar veikinda sinna, ofskynjanir, sem virðast þó að lokum ætla að opna henni leið út úr ógöngunum.

Kompa er skáldsaga um uppruna sögulegra heimilda og tilviljunarkennda varðveislu þeirra.

 

úr bókinni

Og sú sem rýfur þögnina er Bonný; hún varpar fram þeirri spurningu hvort það sé ekki eitthvað málum blandið með þennan prófessor

Ég hafði boðað forföll í bústaðnum en var nú komin með bakþanka. Og í höfuðið mynd af grasbala við litla laut. Á tekksófa með mosagrænu ullaráklæði, fyrir framan borð úr sama efni með blaðagrind undir plötunni, sitjum við æskuvinir tveir. Ellefu ára. Stuttklipptar í þröngum rúllukragabolum og röndóttum sokkum fyrir tíu tær. Við látum okkur síga niður með lausum sessunum. Það er hart undir okkur og óstöðugt en við leiðum ekki hugann að því með andlitin á bak við Vikublöð. Ég les um dulræna reynslu nokkurra Íslendinga á geimferðaöld en Sigga les um ferð til tunglsins. Til hvers ætti að senda mann til tunglsins ef ekki er víst að hann geti snúið til baka? Svo stendur hún upp, leggur blaðið á borðið, opið þar sem fjallað er um Frakklandsforseta og hið mikla vald sem hann virðist hafa yfir umhverfi sínu, og vill fara út. Þá er ég of niðursokkin í frásögn Arons Guðbrandssonar kauphallarstjóra af dularfullu atviki sem átti sér stað á skrifstofu hans í Hafnarstræti í Reykjavík um miðjan 7. áratuginn. Ég er að klára frásögn Arons þegar Daði kemur út af klósettinu, örugglega búinn að pissa svolítið á ferskjulita og dúnmjúka mottuna sem liggur á gólfinu eins og skeifa þétt upp að klósettskálinni, þurrka sterkar og grófar hendur sínuar með mintugrænu handklæði og setja samkvæmt hefðum hússins aftur í flúraðan koparhringinn þannig að útsaumaða vatnaliljan og blúndukanturinn snúi út. Hávaxinn og þéttur á velli lokar hann varlega á eftir sér og gengur í áttina til mín. Í einhverju fáti fletti ég blaðinu áfram, frá dulrænni reynslu braskarans í Hafnarstrætinu, og þegar Daði stendur við sófann þar sem ég sit með blaðið í höndunum, horfir hann niður til mín, klappar mér á kollinn og hlær: "Gissur gullrass!" Svo er hann kominn út á veröndina og horfir niður að vatninu. Ég teygi mig í átt að blaðagrindinni og gref undan bunkanum blað sem virðist fljótt á litið miklu eldra en bústaðurinn sjálfur. Á forsíðu er teikning af ungri stúlku með minnisbækur fyrir framan sig. Stúlkan styður hönd undir kinn og horfir hugsi út í loftið 15. desember 1938. Ég horfi á grein um spænskan málara sem fyrirlítur aðdáendur sína, gríp annað blað og ætla að lesa sögu sem heitir Hádegisverðurinn, þegar ég heyri nafn mitt kallað inn af veröndinni. Það er Daði sem stendur brosandi þar úti og bendir í átt að vatninu með þeim skilaboðum að ég eigi að koma út og slást í för með þeim þangað niður eftir.

Ég stend ekki strax upp en horfi á hann úr stofunni fara úr fremur fíngerðum inniskóm og troða sér í svört gúmmístígvél. Ég fer að hugsa um hvaðan þessi maður komi og hvernig hann hafi orðið eins og hann er. Hvers vegna hann sé svo blíður og vægur, alinn upp af einstæðum föður í afskekktri sveit? Og af hverju pabbi sé líka svona góður maður. Svo hlýr og réttsýnn og næstum því óþolandi umburðarlyndur eftir að hafa hírst í þrengslum og sagga með sjö systkinum og fályndum foreldrum í Reykjavík upp úr miðri síðustu öld.

Nei, ég spurði mig auðvitað ekki að því þá. Ég er að spyrja mig að þessu núna, útafliggjandi á nýja heimilinu mínu í Reykjavík með andardrátt Hansa í eyrunum og í framhaldinu spyr ég sjálfa mig: Hvar skyldu öll þessi gömlu Vikublöð nú niðurkomin?

(s. 55-57)

 

Fleira eftir sama höfund

Delluferðin

Lesa meira

History. A Mess

Lesa meira

Sigrún og Friðgeir: Ferðasaga

Lesa meira

Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847-1917

Lesa meira