Beint í efni

Dyngja

Dyngja
Höfundur
Sigrún Pálsdóttir
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur

um bókina

Hvað leynist bak við bláan einkennisbúning og silkislæðu, sólbrúna húð og rauðlakkaðar neglur? Dauð rödd söguhetjunnar býður þér að kaupa tollfrjálsan varning og þegar þú afþakkar boðið heldur hún áfram ganginn með þennan klunnalega en vellyktandi vagn á undan sér. Hægt í átt að ljósinu og endalokum þeirrar undraverðu sögu sem nefnd hefur verið Dyngja. Hún hófst um miðbik 20. aldar á litlum bæ við rætur Ódáðahrauns og þaðan barst hún lengra inn í landið; frá hálendi Íslands út í geim og að lokum til tunglsins.

úr bókinni

Það er með hreinum ólíkindum hvernig þessi dýrðlega veisla kemst fyrir á svo litlum bakka. Það sem fyrst fangar athyglina er skrautskorin ágúrka ofan á hrásalti, ofan á gúrkunni steinseljuhnoðri. Fyrir miðju bakkans er ferhyrnt ílát og þar liggur grillað kjúklingalæri umvafið kartöflubitum og grænum baunum, og við hlið þess íláts stendur annað sem geymir vænan humarhala ofan á salatblaði og sítrónusneið. en þar með er ekki allt upptalið því þarna er líka glansandi brauðbolla, oufrlítið innpakkað smjörstykki og ostbiti, og við hlið tóma kaffibollans bíður sjálft kaffibrauðið: hringlaga smjörkaka spurð heiðgulum búðingi.

Flugfreyjan, klædd í hvíta hanska, ferjar bakkann yfir á borð farþegans. Því næst tekur hún kampavínsflöskuna upp úr klakakældu vatninu, klæðir hana hvítri línservíettu og hellir í glasið sem farþeginn réttir í átt til hennar. Hann er karlmaður á fertugsaldri, hávaxinn og grannur. Hár hans er burstaklippt, grásprengt í vöngum. Hann er skarpleitur, nokkuð svipharður, eiginlega svolítið úlfslegur í útliti, en þegar flugfreyjan hefur fyllt glas hans af víni víkur hið hörkulega yfirbragði fyrir fallegu brosi, ekki sérlega breiðu en það nær þó til blárra augnanna. Maðurinn leggur glas sitt aftur á bakkann án þess að fá sér sopa, grípur lærlegginn og byrjar að naga kjötið á meðan ókyrrðin í loftinu sendir ískaldar veigarnar í hólkvíðu glasinu niður á sparibuxurnar hans.

Vél Loftleiða á um fimm klukkustundir eftir til Keflavíkur. Maðurinn ferðast frá Bandaríkjunum og þegar hann lendir á Íslandi á hann enn langt ferðalag fyrir höndum; til Akureyrar og þaðan inn á hálendið. Hann er orrustuflugmaður. Tilraunaflugmaður. Geimfari kominn til Íslands til að ganga um hraun og sanda. Tína steina og lesa í jarðsöguna. Fari svo að einn dag verði hann sendur til tunglsins.

Hópur hans, um tuttugu jakkafataklæddir geimfarar og vísindamenn, var kominn norður um morguninn. Þaðan var flogið með mennina austur í Grafarlönd og að lokum voru þeir ferjaðir með fjallabílum inn í Herðubreiðarlindir. Þar var umferð o gmikiðum að vera og skömmu síðar voru mættir á svæðið sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, í gönguskóm og vindblússu, og forsætisráðherra Íslands. Ólíkt Ameríkumönnunum var íslenski ráðherrann uppáklæddur, með hálsbindi og í blankskóm. Fremur lágvaxinn með svartan sixpensara á höfði. Hann ákvarpaði hópinn og þótt hann væri enginn sérstakur ræðumaður varð glaðlegt yfirbragð og útgeislun hans til þess að allir lögðu við hlustir þegar hann bauð hópinn velkominn. Þeir áttuðu sig reyndar ekki allir á því hvað hann var að fara þegar hann byrjaði að líkja þeim við forfeður Íslendinga sem á tíundu öld hefðu siglt yfir Atlantshafið til að nema ný lönd, breikka sjóndeildarhringinn fyrir mannkyn allt. 

(s. 62-64)

Fleira eftir sama höfund

Delluferðin

Lesa meira

History. A Mess

Lesa meira

Sigrún og Friðgeir: Ferðasaga

Lesa meira

Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847-1917

Lesa meira