Beint í efni

Ein báran stök

Ein báran stök
Höfundur
Ólafur Haukur Símonarson
Útgefandi
Skrudda
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Skáldsögur

Af bókarkápu:

Sögusvið þessarar skáldsögu er lítið bæjarfélag við sjávarsíðuna þar sem lífið virðist ganga sinn hversdagslega vanagang. En þegar skyggnst er undir yfirborðið kemur í ljós að allt ólgar af ástríðum og átökum um eignir, völd og hjörtu mannanna. Að vanda spinnur Ólafur Haukur gaman og alvöru saman í heillandi blöndu.


Úr Ein báran stök:

Óskar vert er ískyggilega dökkrauður í framan þegar hann rogast með bjórkútinn inn í eldhús. Þetta var erfið nótt. Fyrsta sprettinn hraut hann svo hátt að Signý neyddist til að ýta við honum. Elsku Óskar minn, sagði hún, þú hrýtur svo hátt að ég get ekki sofið. Óskari tókst ekki að sofna aftur. Hann velti sér andvaka og kófsveittur fram til klukkan fjögur. Að lokum gafst hann upp, fór niður í eldhús og hesthúsaði þar þrjár brauðsneiðar með osti og spægipylsu. Hann var varla skriðinn upp í aftur þegar sýrustrókurinn óð upp vélindað alla leið upp í kok. Sýran var svo römm að Óskar fékk hnerrakast og vakti Signýju á nýjan leik. Hann fór aftur niður í eldhús og gerði dauðaleit að brjóstsviðatöflunum. Fann að lokum pakkann, bruddi fimm töflur og hugsaði um það hvað hann hefði hagað sér afburða heimskulega að háma í sig ost og spægipylsu um miðja nótt. En svona er þetta með hann Óskar, stundum er honum hreinlega ekki sjálfrátt. Þannig var það með brennivínið hér áður, engin stöðvun, engin glóra; hann drakk stjórnlaust þar til hann leið út af.
Óskar sofnaði undir morgun. Dreymdi að hann sat við barborðið og beið eftir því að rúta full af fólki renndi í hlað. Hann var þreyttur og óupplagður svo hann hellti vodka í glas og skellti því í sig. Leið strax betur. Hellti aftur í glasið. Það gat ekki skaðað að stramma sig aðeins af. Enginn mundi sjá vín á honum. Hann drakk þriðja glasið í botn. Nú leið honum vel. Kvíðahnúturinn var horfinn. Þegar rútan ók í hlað var hann tilbúinn í slaginn. Ferðafólkið byrjaði að tínast inn í matsalinn. Hann ætlaði að bjóða gestina velkomna en gat þá allt í einu ekki komið upp orði. Fólkið starði á hann. Hann reyndi að móta orð en það heyrðist ekkert; hann gat ekki talað. Þá vildi hann komast út og reyndi að hreyfa fæturna, en þeir neituðu að hlýða. Svo varð allt svart.
Það er engin furða að Óskar sé þreyttur; hann er lurkum laminn. Augun eru blóðhlaupin og slímhúðir í koki og nefi bólgnar. Og verkefnin blasa við eins og alla daga, morgunmatur, hlaðborð í hádeginu og a la carte á kvöldin. Auk þess afmæli, jarðarfarir, þorrablót, laugardagsfyllerí, karókí og kvabbandi ferðamenn út í óendanleikann. Þúsundir daga með milljónum handtaka og jafn margar nætur með slitróttum svefni og endurteknum martröðum.

(bls. 111-112)

Fleira eftir sama höfund

Rost (Autowerkstatt Baddi)

Lesa meira

Gauragangur

Lesa meira

Das Meer

Lesa meira

Victoria und Georg

Lesa meira

Skýjaglópur skrifar bréf

Lesa meira

Brestur

Lesa meira

Blómarósir

Lesa meira

Boðorðin 9 : hjónabandssaga á augabragði

Lesa meira

Fólkið í blokkinni

Lesa meira