Beint í efni

Aukaverkanir

Aukaverkanir
Höfundur
Ólafur Haukur Símonarson
Útgefandi
Sögur
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Skáldsögur

Úr Aukaverkunum

Í Melabúðinni sé ég tvo skjólstæðinga mína. Annar er tónlistarmaður og býr á Melunum óskaplega brosmildur og spaugsamur maður sem stendur í þeirri undarlegu trú að hann verði táningur að eilífu. Hann virðist ekki geta ímyndað sér annað hlutskipti en að spila með unglingahljómsveitum sem eru reyndar allar orðnar meira og minna sköllóttar og heyrnarlausar.

Hann kemur auga á mig.

- Allt annað líf, Njáll! hrópar hann. Nú heyri ég hvað ég spila!

- Og hvernig hljómar það?

- Ég vissi ekki að ég væri svona drullu-góður!

Það hefur tekið mig mörg ár að mjaka manninum til þess að fá sér heyrnartæki; svona þrjóskuhausar eiga ekki skilið að heyra neitt.

Hinn skjólstæðingurinn er snoppufríð gerviblondína sem gæti verið í fínu standi hefði hún látið verða af því að skilja við mannfífl sem rekur drykkjubúllur og skiptir um kennitölu oftar en skyrtu. Blondínan á það til að reka sig á skáphurðir og hljóta af glóðaraugu. Hún mætir reglulega á stofuna til mín þeirra erinda að pína út úr mér svefn- og geðlyf og fleira. Hver stenst skemmtilegar gerviblondínur? Ég er auðveld bráð.

Hún brýst til mín í gegnum þvöguna sem alltaf er í þessari ágætu búðarholu, grípur í mig og hrópar: Guð, hvað ég var heppin að hitta þig!

- Hvað er að?

- Bara þetta venjulega, kvíði, depurð, þunglyndi og dass af sjálfsmorðshugleiðingum.

- Klukkan 9:45 í fyrramálið.

- Ég elska þig!

- Það er ekki nauðsynlegt.

- Ég meina það, Njáll, þú ert dásamlegur!

Ég geng út úr Melabúðinni með grillaðan kjúkling í álpoka, risaskammt af frönskum kartöflum og tvo lítra af Pepsí-Max.

Ég sit kyrr í bílnum í innkeyrslunni heima í Bergstaðastræti og hlutsta á útvarpið. Tvö þúsund manns á Austurvelli að mótmæla frumvarpi utanríkisráðherra um að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka. Þarf ég að hafa skoðun á því einmitt núna? Löng frétt um lekamálið endalausa. Snjóruðningur hafinn á Norðurlandi. Telst það til tíðinda? Stór skjálfti við Bárðabungu. Kemur á óvart eða hvað? Holuhraun orðið jafnstórt Reykjavík. Ég slekk á útvarpinu, gríp pokann með kjúklingnum og stíg út úr bílnum.

(33- 4)

 

Fleira eftir sama höfund

Rost (Autowerkstatt Baddi)

Lesa meira

Gauragangur

Lesa meira

Das Meer

Lesa meira

Victoria und Georg

Lesa meira

Skýjaglópur skrifar bréf

Lesa meira

Brestur

Lesa meira

Blómarósir

Lesa meira

Boðorðin 9 : hjónabandssaga á augabragði

Lesa meira

Fólkið í blokkinni

Lesa meira