Beint í efni

Valkyrjan

Valkyrjan
Höfundur
Elías Snæland Jónsson
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Barnabækur

Úr Valkyrjunni:

 Hildur sá fljótlega að þetta var engin venjuleg borg þar sem húsin liggja gjarnan hlið við hlið í röðum meðfram strætum og torgum.
 Hérna var miklu lengra á milli stóru bygginganna.
 Hún sá glitta í glæsilegar hallir út við sjóndeildarhringinn til flestra átta. Tugir ef ekki hundruð kílómetra voru á milli helstu stórhýsanna.
 Grani stefndi inn að bröttu og breiðu klettabelti sem stóð tígulega út af fyrir sig á grænni sléttunni og glansaði í fjarskanum líkt og fjallshlíðin væri úr silfurbergi.
 Þegar nær dró kom í ljós að þetta mikla ferlíki var alls ekkert fjall.
 Nei, silfurbergið var hrikalega stór höll með mörgum breiðum hliðum.
 Þetta var Valhöll. Bústaður Óðins.
 Fyrir framan stærsta innganginn var óvenjulegur trjálundur. Að minnsta kosti hafði Hildur aldrei séð slík tré áður.
 Sterklegu stofnarnir voru rauðgulir á litinn en lauf trjánna roðagyllt. Í björtu sólskininu geislaði af gullnu laufunum eins og spegilbrotum.
 Þegar Grani hafði stigið mjúklega ofan í lundinn stökk Brynhildur af baki og kippti Hildi niður til sín.
 Á þessum skrítna himni höfðu þær fast land undir fótum á ný. Eins og þær stæðu á jörðu niðri.
 Gæðingurinn hristi sig hressilega áður en hann spretti úr spori út eftir grösugu túninu.
 Hildur hallaði höfðinu eins langt aftur á bak og hún mögulega gat. Samt tókst henni ekki að sjá alla leið upp á þakið á þessum mikla kastala. Það var svo rosalega hátt uppi.
 Brynhildur steig föstum skrefum út á milli gullnu trjánna og stikaði kröftuglega í áttina að stóru dyrunum.
 Eltu mig, kallaði hún.
 Arg! Arg!
 Hildur heyrði hávært, rándýrslegt öskur beint fyrir ofan sig.
 Hún snarstansaði og leit snöggt til lofts.
 Þarna hátt uppi, á stalli sem var nokkru fyrir ofan dyrnar inn í höllina, sat risavaxinn fugl. Hann starði reiðilega niður til þeirra og gargaði hástöfum.
 Hún þekkti strax á grimmdarlegum augunum og flugbeittum gogginum að þetta var hræðilega stór örn.
 Hildur hafði aldrei séð annan eins fugl. Hann var örugglega á stærð við sjúkraflugvélarnar sem lent höfðu annað slagið á malarbrautinni heima.
 Örninn gerir þér ekkert, sagði Brynhildur.
 Hún stormaði á undan gegnum hliðið, þvert yfir gróðursælan garð og inn um löng og breið göng. Hildur þurfti að hlaupa við fót til að hafa við henni.
 Allt í einu voru þær komnar inn í feikimikinn veislusal.

(s. 60-61)

Fleira eftir sama höfund

Brak og brestir

Lesa meira

Átök milli stríða

Lesa meira

Töfradalurinn

Lesa meira

Hvernig skyldi það vera?

Lesa meira

Draumar undir gaddavír

Lesa meira

Fjörbrot fuglanna : Leikrit í tuttugu atriðum

Lesa meira

Krókódílar gráta ekki

Lesa meira

Davíð og Krókódílarnir

Lesa meira