Beint í efni

Brak og brestir

Brak og brestir
Höfundur
Elías Snæland Jónsson
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
1993
Flokkur
Barnabækur

Úr Brak og brestir:

 Höfðu strákarnir ekkert samband eftir þetta?
 Árni hristi höfuðið.
 Nei. Og um níuleytið var komið kolvitlaust veður.
 Sambandslausir í sautján tíma, sagði Siggi eins og við sjálfan sig.
 Svo leit hann á Árna.
 Höfðu þeir einhverjar vistir?
 Þeir voru með samlokur og súkkulaði og djús að drekka.
 Ekkert heitt?
 Það held ég ekki.
 Og auðvitað ekkert tjald eða annan viðlegubúnað?
 Árni hristi höfuðið sem fyrr.
 Þetta átti bara að vera skottúr til að ná í bensín.
 Siggi var þungur á brún.
 Við skulum ekki hangsa hérna lengur, sagði hann hörkulega. Komum okkur til leitar.
 Samkvæmt þessum upplýsingum ættu þeir að vera einhvers staðar á milli Sátu og efstu byggða í Skagafirði, sagði Guðmundur. Það afmarkar leitarsvæðið verulega.
 Björgunarsveitir eru fyrir nokkru lagðar af stað upp úr byggð bæði í Skagafirði og Eyjafirði, sagði pabbi sem sat enn við fjarskiptatækin í Drekanum. Stjórnstöðin vill fá að heyra í Guðmundi.
 Guðmundur tók við tólinu og ræddi við stjórnanda leitarinnar.
 Stjórnstöð leggur til að við förum fyrst að Sátu og svo þaðan í norðurátt, sagði hann eftir stutt samtal.
 Siggi sneri sér að Árna.
 Er jeppinn bensínlaus?
 Svo til.
 Fyllið á jeppann, strákar, sagði Guðmundur við félaga sína.
 Þeir hlupu til, losuðu stóran bensínbrúsa aftan af einum bíla sinna og helltu bensíninu á tank litla jeppans sem Árni setti svo í gang.
 Leggjum í ann, sagði Siggi og snaraði sér upp í Drekann.
 Hákon fylgdi Hönnu Stínu að litla jeppanum.
 Við finnum þá örugglega, sagði hann. Vertu alveg viss.
 Þegar hún var komin upp í bílinn til pabba síns flýtti Hákon sér að Drekanum. Siggi hafði þegar ræst vélina og jepparnir brunuðu af stað hver af öðrum með bensíngjöfina í botni.
 Hákon reyndi að ímynda sér hvernig það væri að liggja úti í snjónum og hríðinni heila nótt í stað þess að sofa í þægilegum, hlýjum svefnpoka í skálanum á Hveravöllum.
 Það setti að honum hroll.
 Hann skildi mætavel að Siggi vildi flýta sér. Fyrir Sæma og Ása gátu jafnvel mínútur ráðið úrslitum um líf eða dauða.

(s. 90-91)

Fleira eftir sama höfund

Átök milli stríða

Lesa meira

Töfradalurinn

Lesa meira

Hvernig skyldi það vera?

Lesa meira

Draumar undir gaddavír

Lesa meira

Fjörbrot fuglanna : Leikrit í tuttugu atriðum

Lesa meira

Krókódílar gráta ekki

Lesa meira

Davíð og Krókódílarnir

Lesa meira

Lífsins steinn

Lesa meira