Beint í efni

Davíð og Krókódílarnir

Davíð og Krókódílarnir
Höfundur
Elías Snæland Jónsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1991
Flokkur
Barnabækur

Úr Davíð og Krókódílarnir:

 Hann gekk með þeim til baka niður á Hlemm þar sem þau tóku strætó upp í Mjódd.
 Ég skal kaupa miðana, sagði Davíð þegar þau komu að Bíóhöllinni.
 Rósa brosti.
 Það var slangur af fólki í salnum. Þau fengu sér sæti aftarlega í miðri mannlausri sætaröð. Davíð settist við hliðina á Rósu.
 Ég verð alltaf svo ógeðslega hrædd á svona myndum, sagði Rósa.
 Alveg satt, sagði Lára. Síðast öskraði Rósa ennþá meira en stelpan í myndinni.
 Það dimmdi í salnum. Auglýsingunum var lokið. Sjálf myndin var að byrja.
 Á hvíta tjaldinu var nótt. Gangstígur umlukinn trjám til beggja hliða. Laufið bærðist fyrir golunni. Þarna var stúlka á gangi. Hún horfði angistarlega í kringum sig, hrædd við það sem kynni að leynast í trjánum í myrkrinu. Hún heyrði fótatak fyrir aftan sig. Stansaði. Horfði til baka. Heyrði ekkert nema gnauð vindsins. Gekk af stað á ný, hraðar en áður. Fótatakið heyrðist enn greinilegar. Hún jók hraðann til muna, óttaslegin á svip. Skyndilega glampaði eitt augnablik á hnífsblað inni á milli trjánna. Nú var stúlkan farin að hlaupa. En allt í einu stansaði hún. Einhver kall með grímu fyrir andlitinu stóð fyrir framan hana. Hann lyfti hnífnum. Stúlkan veinaði . . .
 Davíð kipptist við þegar Rósa æpti í sætinu við hliðina á honum.
 Fólkið í salnum fór að hlæja.
 Svona lætur hún alltaf, hvíslaði Lára.
 Ég get ekki að því gert, sagði Rósa æst. Haltu í mig! Hún greip um lófa hans, fléttaði fingur þeirra saman og lagði samtvinnaðar hendurnar í kjöltu sér.
 Davíð átti erfitt með að fylgjast með myndinni. Athygli hans beindist öll að Rósu sem kreisti hönd hans og þrýsti henni að sér í hvert sinn sem spennan magnaðist á hvíta tjaldinu. Hann hafði aldrei áður fundið fyrir nálægð stelpu á þennan hátt.
 Þegar bíómyndin var búin og ljósin kviknuðu á ný í salnum sleppti Rósa loks takinu og dæsti ánægjulega.
 Það er svo æðislegt að vera hrædd í bíó.

(s. 27-28)

Fleira eftir sama höfund

Brak og brestir

Lesa meira

Átök milli stríða

Lesa meira

Töfradalurinn

Lesa meira

Hvernig skyldi það vera?

Lesa meira

Draumar undir gaddavír

Lesa meira

Fjörbrot fuglanna : Leikrit í tuttugu atriðum

Lesa meira

Krókódílar gráta ekki

Lesa meira

Lífsins steinn

Lesa meira