Beint í efni

Draumar undir gaddavír

Draumar undir gaddavír
Höfundur
Elías Snæland Jónsson
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
1996
Flokkur
Skáldsögur

Úr Draumar undir gaddavír:

Þura frænka situr í mjúku framsætinu við hliðina á Sigurði bróður sínum sem ekur Ramblernum inní þorpið, framhjá stórum leikvelli með rauðum, bláum og hvítum tækjum og sverum reipum sem hanga niðurúr háum gálgum, en staðnæmist við bjartmálað hús í stórum garði sem er girtur háum steinveggjum á allar hliðar einsog virki eða kastali í sögum um hugrakka riddara.
 Þarsem malargatan liggur heim að bílskúrnum eru tvö hlið; annað er lítið en hitt umþaðbil þriggja metra breitt milli hárra stöpla sem standa vörð beggja vegna.
 Hérna eigum við nú heima, segir frænka og ekur sér í leðurfóðruðu sætinu.
 Húsið er hvítt með gráu, grænleitu, bárujárnsklæddu þaki; kjallari, hæð og ris. Hvítir virkisveggirnir vernda húsið fyrir veröldinni einsog múrinn mikli austur í Kína.
 Hún stígur útúr bílnum, gengur að stóra hliðinu og ýtir svartmáluðu járngrindinni inní garðinn; það ískrar í hjörunum.
 Þegar Jón Mikael smeygir sér útum afturdyrnar á Ramblernum heyrir hann hátt, nístandi öskur sem magnast ört og nálgast svo hratt að það minnir hann eitt andartak á ofsafengna árás kríugersins um varptímann fyrir norðan. Hann lítur snöggt uppí himininn til móts við þetta ógnvænlega, skerandi óhljóð.
 Gráleit, vængjuð örin kemur hvínandi gegnum loftið á ofsahraða. Sólargeislarnir glampa af silfurgljáandi vélinni sem virðist stefna beint til þeirra. Hann beygir sig ósjálfrátt niður til að fá ekki flugvélina beint í fangið, en hún þýtur ofar höfðum þeirra með lamandi þrumugný.
 Það bregður öllum í fyrsta sinn sem þeir heyra þessar þrýstiloftsvélar fara yfir, segir Sigurður og hlær svo hátt með galopinn munninn að Jóni Mikael verður starsýnt á stórkallalegu hláturgeifluna í skvapkenndu andlitinu.
 Þú venst þessu strax, heldur Sigurður áfram. Hér eru allir löngu hættir að taka eftir þeim.
 Þær eru alltaf á ferðinni þessar flugvélar, segir frænka. Stundum held ég barasta að þeir séu að sprengja hljóðmúrinn hérna yfir byggðinni að gamni sínu.
 Aldrei að gamni sínu, mótmælir Sigurður. Þeir eru bara að flýta sér norður á bóginn til að reka sprengjuflugvélar Moskvukommana frá landinu.
 Jón Mikael finnur enn ofsafenginn hjartsláttinn í brjósti sér og skimar uggandi upptil landsins. Nokkrar gráleitar byggingar bera við himininn, en á milli þeirra og þorpsins er girðing svo langt sem augað eygir til beggja hliða; einskonar net úr vír, fest á háa járnstólpa sem standa beint uppí loftið nema efst þarsem þeir horfa á móti honum.
 Jú, jú, herstöðin er þarna uppfrá, svarar Þura frænka þögulli spurningu hans og bregður handarbakinu sem snöggvast fyrir blindandi skin miðdegissólarinnar.

(s. 12-14)

Fleira eftir sama höfund

Brak og brestir

Lesa meira

Átök milli stríða

Lesa meira

Töfradalurinn

Lesa meira

Hvernig skyldi það vera?

Lesa meira

Fjörbrot fuglanna : Leikrit í tuttugu atriðum

Lesa meira

Krókódílar gráta ekki

Lesa meira

Davíð og Krókódílarnir

Lesa meira

Lífsins steinn

Lesa meira