Beint í efni

Rúnagaldur

Rúnagaldur
Höfundur
Elías Snæland Jónsson
Útgefandi
Skrudda
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur
Spennusaga.

Af bókarkápu:

Þýskir nasistar trúðu því að hinir norrænu ásar, Óðinn og Þór, hefðu haft yfir að ráða mögnuðum vopnum og töldu að í rústum týndra borga Gota í Evrópu mætti finna lykil að þessu forna leyndarmáli. - Hvers vegna klæðist níræður Íslendingur einkennisbúningi hinna illræmdu SS-sveita Þriðja ríkisins áður en hann fremur sjálfsmorð? - Hvers vegna grípa dularfullir menn til örþrifaráða til að afla upplýsinga um rannsóknir þýskra nasista á launhelgum Óðins og Þórs? - Af hverju gera þeir Ísland að vettvangi skuggalegrar starfsemi sinnar?

Úr Rúnagaldri:

Melkorka sneri sér aftur að þýðingu minnisbókar afa síns sem lýsti hættuför sinni suður að Svartahafi þar sem heiftarlegir bardagar Þjóðverja og Rússa geisuðu mánuðum saman.
  Um leið og þýskum hersveitum tókst að yfirbuga síðustu virki Sovétmanna á Krímskaga sendi Himmler nokkra vísindamenn á vegum Ahnenerbe SS til að finna minjar um hið forna ríki Gota, þar á meðal höfuðborg þeirra, Doros, sem horfið hafði í mistur aldanna. Íslenski rúnameistarinn Höskuldur Steingrímsson var með í þeirri för.
  Herbert Jankuhn, forstöðumaður fornleifarannsókna Ahnenerbe, stýrði fræðimannahópnum sem hélt niður til Svartahafs í leit að rústum og fjársjóðum hinnar fornu Gothiu. Doktor Jankuhn var einn víðkunnasti fornleifafræðingur Þjóðverja á þessum árum og eftirlæti Himmlers. Hann var einum kunnur fyrir rannsóknir í Haithabu eða Heiðarbæ í Slésvík, mesta verslunarstað danskra víkinga þar til Haraldur Noregskonungur harðráði lét brenna bæinn til grunna á elleftu öld. Með í suðurförinni voru einnig fornleifafræðingarnir doktor Karl Kersten og Wolf von Seefeld, barón.

Komnir til Starobeseve. Í þessu litla þorpi er sem stendur stjórnstöð SS Panzerdivision Wiking undir forystu Felix Steiners hershöfðingja sem leggur allt kapp á að ná sem fyrst á sitt vald olíustöðvum við borgina Maikop í Kákasus. Hann segir stöðuna á Krímskaga afar óvissa og hvetur okkur til að fara varlega. Doktor Jankuhn er óþolinmóður; hann vill freista þess að finna sem mest af fornum dýrgripum Gota áður en óvininum gefist tækifæri til að koma þeim undan. Rússar hafa að undanförnu flutt verksmiðjur og verðmæti austur til Úralfjalla en eyðileggja flest það sem þeir neyðast til að skilja eftir.
  Við skiptum liði fyrir utan Maikop. Wiking sækir inn í brennandi borgina og Jankuhn og Seefeld fara í fylgd hermannanna inn í Maikop til að leita uppi forna safngripi. Samkvæmt nýjum fyrirmælum Himmlers héldum við Kersten suður eftir Krímskaga til að kanna mangup Kale og aðrar gotneskar hellaborgir sem eru í hæðunum fyrir austan Sevastopol. Ein þeirra gæti hafa verið höfuðborgin Doros.
  Miðstöð okkar er í Bakhchysaray, höfuðborg Tartara sem Stalín rak til Síberíu. Þar eru hrífandi hallir og mijar frá miðöldum, en ég hef eingöngu áhuga á að finna gotneskar byggðir og rúnir frá tímum Óðins.
  Við tökum hvern dag snemma, förum í dagsferðir um fornar rústir í skógklæddum klettahæðum og gömlum hellum þar sem skæruliðar bolsévika eru sagðir leynast á nóttunni, en við snúum alltaf til baka fyrir myrkur. Við höfum kannað hellaborgina Chufut Kale, virkið eldgamla Tepe Kermen og víðfeðmar rústir Eski Kermen sem er einstaklega máttug klettaborg og var vafalaust óvinnandi virki í fornöld.
  Rústir Mangup Kale eru enn sunnar. Þær heilla mig mest. Vistarverur hafa verið grafnar inn í bergið á mörgum hæðum og einnig djúpt í jörðu. Hér eru vafalaust margir duldir hellar neðanjarðar. Rússar létu grafa í rústunum fyrir nokkrum árum og fundu fjölda steinmynda og annarra gripa sem ég hef þegar skoðað á safninu í Bakhchysaray. Á engan þeirra steina höfðu verið ristar gotneskar rúnir.
  Dag eftir dag rannsaka ég rústirnar í Mangup Kale. Rís úr rekkju fyrir dögun. Hamast með haka og skóflu á líklegum stöðum þar sem engin ummerki eru sjáanleg um nýlegt rask, en hef ekki fundið neitt merkilegt þótt dagarnir séu orðnir að vikum. Stríðið geisar allt um kring en ég leiði það hjá mér. Þessa stundina tilheyrir hugur minn og hjarta fortíðinni.

Að því kom að leitin bar árangur:

Fann loksins nokkra hella sem jörðin hefur falilð undir mold og grjóti og jarðargróða í aldanna rás. Með blys á lofti kannaði ég þrönga ranghala sem liggjal angt inn í bergið. Þeir enda í einhvers konar hofi þar sem fórnarstallur stendur fyrir miðju gólfi. Djúp hola er undir honum. Blóðskál? Ég kannaði veggina vandlega þar til ég fann ristur sem gætu verið rúnir. Hreinsaði þær af varfærni, tók margar ljósmyndir af steininum og afþrykk af ristunum og teiknaði þær líka á blað. Kvöldmyrkur var skollið á þegar ég kom upp u´r hellinum. Allt var hljótt og friðsælt, en ég vissi að í rústunum leyndist lífshætta við hvert fótmál í náttmyrkrinu og sneri til baka niður í hofið. Ég beið morguns í undirheimum Mangup Kale og fann þar til sterkrar samkenndar og með hinum fornu Gotum sem lifðu í þessari voldugu virkisborg seint á fjórðu öld þegar asísku Húnarnir helltu sér yfir þá eins og engisprettur.

(85-7)

Fleira eftir sama höfund

Brak og brestir

Lesa meira

Átök milli stríða

Lesa meira

Töfradalurinn

Lesa meira

Hvernig skyldi það vera?

Lesa meira

Draumar undir gaddavír

Lesa meira

Fjörbrot fuglanna : Leikrit í tuttugu atriðum

Lesa meira

Krókódílar gráta ekki

Lesa meira

Davíð og Krókódílarnir

Lesa meira