Beint í efni

Renus í hjarta

Renus í hjarta
Höfundur
Birgitta Halldórsdóttir
Útgefandi
Skjaldborg
Staður
Reykjavík
Ár
1998
Flokkur
Skáldsögur

Úr Renus í hjarta:

 Hún hét Björk Birkisdóttir og var 22 ára nemi í enskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Faðir hennar, Birkir Bjarnason, var prófessor í sögu en móðir hennar, Kolbrún Axelsdóttir, kennari við Austurbæjarskólann. Hún kenndi ensku og var mjög vel látinn kennari. Það var eflaust frá henni sem Björk hafði erft áhuga á þessu vesturgermanska tungumáli. Þó voru það fyrst og fremst enskar bókmenntir sem heilluðu Björk. Frá því að hún var lítil telpa hafði Charles Dickens verið hennar uppáhaldshöfundur. Hún las bækurnar hans aftur og aftur, sögur eins og Oliver Twist, Nikulás Nickleby og Davíð Copperfield. Þessar bækur höfðu orðið til þess að hún ákvað að velja sér enskar bókmenntir í Háskólanum og Dickens var enn uppáhaldsskáldið hennar.
 Björk var falleg stúlka. Hún var dökk yfirlitum. Svart hárið var glansandi og þykkt, augun brún og húðin með þessum gullna lit sem aldrei er hægt að ná í frá sólinni. Hún var svipmikil og sterkar línur voru í fríðu andlitinu. Í skóla var hún stundum kölluð Indverjinn en henni var sama. Vinkonur hennar öfunduðu hana af ómótstæðilegu útliti hennar en þó ekki á neikvæðan hátt. Björk var sterkur einstaklingur og vinur vina sinna. Þess vegna var hún vinsæl og vel látin af félögum sínum. Hún trúði á hið góða í hverjum manni. Það var ef til vill þess vegna sem hún hafði leyft Gunnari að verða stjórnandi í lífi hennar. Hún trúði því ekki lengi vel hve ofboðslega frekur og krefjandi hann var.
 Foreldrar Bjarkar voru alíslenskir og hún vissi ekki til þess að hún ætti ættir að rekja annað. Það var því að sumu leyti broslegt að hún skyldi fæðast með þetta útlit. Vissulega var móðir hennar fremur dökk yfirlitum en faðir hennar ljós. Björk hafði stundum grínast með það að einhver ættmóðir hennar hefði verið laus í rásinni og því hefði hún þetta útlit. Kannski var gamalt ástarævintýri úr fyrndinni að koma fram á henni, svo spaugilegt sem það var. En útlitið spillti ekki fyrir henni, öðru nær. Hún var líka glaðlynd stúlka og hreinskiptin og spengilegt útlit hennar hefði sómt sér vel við tískusýningar. En hún vildi læra enskar bókmenntir og tískuheimurinn freistaði hennar ekki.

(s. 8-9)

Fleira eftir sama höfund

Dagar hefndarinnar

Lesa meira

Játning

Lesa meira

Ofsótt

Lesa meira

Klækir kamelljónsins

Lesa meira

Nótt á Mánaslóð

Lesa meira

Við eigum valið ef við viljum: saga Guðrúnar Óladóttur reikimeistara

Lesa meira

Eftirleikur

Lesa meira

Andlit öfundar

Lesa meira

Áttunda fórnarlambið

Lesa meira