Beint í efni

Jarðnæði

Jarðnæði
Höfundur
Oddný Eir Ævarsdóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur


Úr Jarðnæði:



Notalegt að vera inni í rigningunni. Það er tími þings samkvæmt almanakinu. Í dag hittumst við á fuglaþingi, bárum saman bækur okkar og brýndum goggana. Við erum ekki púkar heldur fuglar í fallegu oddaflugi. Gerðum áætlun um að hvetja þjóðina til að láta rödd sína hljóma.



Nú rabba ég við mig í einverunni og róa mig niður eftir fjaðrafokið, við fórum svo mikinn og teiknuðum upp ótal leiðir sem hægt er að fara aðrar en þá sem nú er farin án samráðs við þjóðina. Maður getur orðið svo úrvinda eftir tilraunir til að hugsa um hvað þjóðinni er fyrir bestu. Hvernig ætli það sé að vera í því í fullu starfi? Allt hugsjónafólkið, deyr það útbrunnið? Ég glápi út á sjóinn og heyri regnið lemja ölduna, vatn við vatn.



Þegar blóðrauð og blaut sólin var komin í hvarf við eyjarnar horfði ég á Líf annarra og grét mikið. Mundi eftir orðum vinkonu minnar eftir fall járntjaldsins um að hún hafi verið hætt að treysta vinum sínum. Vinátta í rúst. Í kerfi allsherjartrausts og alrýmisnándar.



Hvað kallaði hann aftur sjálfan sig, ungverski prófessorinn? Hund? Sagðist hafa fundið upp dýranöfn fyrir alla sem hann þekkti þegar njósnirnar voru stundaðar á alræðistímum. Ég beið spennt eftir að heyra hann nefna mig. Loks kom að því að hann kallaði á mig inn í dýraríkið: Komdu margblessaður og ævinlega sæll, Bangsi. Og síðar barst mér langt og póetískt bréf sem byrjaði á kveðjunni heil og sæl, Bangsadrottning.



Ég get ekki sofnað. Heyri hófadyn gamals satýrs. Hann þeysist inn fyrir sjóndeildarhringinn og kastar mæði sinni á mig.



Er nema von að þú sért einn á báti, gamli brjálaði bangsi? Manstu þegar þú ætlaðir að sprengja af þér óhamingjuna og sprengdir óvart allt upp í leiðinni? Tímasprengjur eru alltaf vitlaust tímasettar. Og lygin mengar innri vötn, skýin verða grá af kvíða.



(s. 45-46)


Fleira eftir sama höfund

Opnun kryppunnar

Lesa meira

Heim til míns hjarta: ilmskýrsla um árstíð á hæli

Lesa meira

Slátur | Slaughter

Lesa meira

snjór piss hár

Lesa meira

Veðrið vitnar um þig

Lesa meira

Weather Reports You

Lesa meira

Leiðin á milli = Ways in Between

Lesa meira

Póst-postilla: Hafnarhúslestrarbók

Lesa meira

Apostles' Clubhouse

Lesa meira