Beint í efni

Dauðamenn: söguleg skáldsaga

Dauðamenn: söguleg skáldsaga
Höfundur
Njörður P. Njarðvík
Útgefandi
Iðunn
Staður
Reykjavík
Ár
1982
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina:

10. apríl 1665 voru tveir feðgar brenndir á báli í Skutulsfirði. Var þeim gefið að sök að hafa ofsótt sóknarprest sinn með göldum og valdið honum sárum þjáningum, andlegum og líkamlegum. Að dóminum og aftökunni stóðu tveir sýslumenn, Magnús Magnússon á Eyri í Syeðisfirði og Þorleifur Kortsson, sem hvað mest hefur komið við sögu íslenskra galdraofsókna.

Um þessa atburði ritaði presturinn séra Jón Magnússon Píslarsögu sína þar sem hann leitaðist við að réttlæta gerðir sínar. Sú bók er varnarrit og birtir einungis sjónarmið prestsins. Í skáldsögunni Dauðamenn hefur Njörður P. Njarðvík endurskapað sögu feðganna, sem brenndir voru, í dramatískri og spennandi frásögn.

Úr bókinni:

Sólin er horfin. Sólin er horfin og sést ekki á ný fyrr en í lok janúar. Fjörðurinn liggur falinn í skuggaþrengslum brattra fjalla. Skammdegismyrkur fer í hönd. Fyrir kemur að bjarmi sést á himni ofar fjallsbrúnum. Rétt eins og óljós minning um bjarta veröld fulla af sólskini og hlýju. En hún er fjarlæg í tíma og rúmi. Bak við þúsund fjöll og handan við óteljandi nætur. Hér og nú er veröldin dimm. Hún hvílir undir skugga hausts og vetrar og myrkurs. Myrkrið leggst yfir fjörðinn eins og lok. Það byrgir alla sýn. Það sést varla lengur til Guðs nema í svipulli andrá. Þegar föl himinbirtan nær að speglast í köldu logni fjarðarins. En myrkrið er ekki lengi að gleypa slíka mynd. Það sígur æ þéttar niður í fjörðinn, niður í byggðina, niður í huga manneskjunnar. Þeir sem eru á fleri varpa ekki lengur neinum skugga. Þeir eru sjálfir orðnir að sínum eigin skugga. Myrkrið spennir greipar utan um þá og heldur þeim föstum. Afl þess er óumflýjanlegt. Það ríkir í veröldinni.

Í þessari skuggaveröld er skuggi á ferli. Hann líður hljoðlaust eftir fjörunni, framhjá bátum og upp í Eyrina. Hann smýgur framhjá kirkjugarði og milli húsa. Hann leggst á skjái og snuðrar við dyr. Fyrr en varir er hann kominn upp á baðstofuþekju. Þar hniprar hann sig saman og samlagast myrkrinu. Allt verður kyrrt og hljótt. Myrkrið heldur áfram að þéttast.

Skyndilega er þögnin rofin. Þrjú hás krunk kveða við. Ómennskur hljómur þeirra er krefjandi og þó átakanlegur. Líkt og örvæntingarkvein. Þau hverfa inn í myrkrið eins og allt annað. Hver ætti sosum að sinna slíkum hljóðum? Koma þau ekki úr barka þess sem er samlitur nóttunni og kyrkjar söng ömurleikans? Þau líða hjá eins og annað. En nú kveða þau við  öðru sinni. þrjú í röð. Hærri og áleitnari en fyrr. Þögnin verður ekki söm og áður.

Innan stundar er rjálað við dyr. Skugginn á þekjunni færist úr stað. Hann lætur sig síga fram á brúnina og horfir niður. Þrgar gengið er út, hrökklast hann til baka upp þekjuna. Svo hverfur hann í myrkrið. Hefur hann sig til flugs eða rennir hann sér niður vegginn? Er þetta hrafn eða maður? Eða ef til vill mannhrafn?

(36-7)

Fleira eftir sama höfund

Antrag abgelehnt

Lesa meira

Skrifað í stein

Lesa meira

Birtan er brothætt

Lesa meira

Aftur til steinsins

Lesa meira

Árbók bókmenntanna: Vika bókarinnar 2005

Lesa meira

Á ströndinni

Lesa meira

Auðun og ísbjörninn

Lesa meira

Birth of a Nation

Lesa meira

Dagur í Austurbotni

Lesa meira