Beint í efni

Dauðaleit

Dauðaleit
Höfundur
Emil Hjörvar Petersen
Útgefandi
Storytel
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Unglingsstúlka hverfur í undirgöngunum í Hamraborg í Kópavogi og það er eins og jörðin hafi gleypt hana. 

Rannsóknarlögreglumaðurinn Halldór Kjartansson fær málið á sitt borð og sér strax að hvarfið er ískyggilega líkt hvarfi besta vinar hans í sömu undirgöngum árið 1994. Vinurinn fannst aldrei. 

Nú kviknar þó von hjá Halldóri og hann uppgötvar tengingu á milli ungmennanna tveggja. Í kapphlaupi við tímann leggur rannsóknarlögreglumaðurinn allt undir í leitinni, en skuggar fortíðar ásækja hann og enn á ný sér hann hluti sem aðrir ekki sjá. 

Úr bókinni

Á farsælum áratugarferli í rannsóknardeildinni hafði Halldóri tekist að forðast þennan stað, Hamraborg. Innst inni hafði hann vitað að það kæmi að þessum degi, en talið sig í stakk búinn til að takast á við það. Aftur á móti gæti hann ekki hafa órað fyrir að það yrði með þessum hætti: að sagan endurtæki sig 

   En hann, sérfræðingur í mannshvörfum, yrði að halda einbeitingu. Yrði að halda fagmennskunni til streitu 

   Hann leit upp frá spjaldtölvunni og drakk afganginn af teinu sem honum hafði tekist að láta malla á meðan hann klæddi sig. Enginn tími hafði gefist fyrir sturtu eða til að borða, en hann átti þó eitt prótínstykki eftir í hanskahólfinu. Þegar hann teygði sig í það sá hann í gegnum regnbarða framrúðuna hvar Linda úr morðrannsóknum nálgaðist opið bílahúsið. Hún var örugg í fasi, stífgreidd, klædd snyrtilegri dragt og einhvern veginn tókst henni í senn að veipa, sötra bensínstöðvarkaffi og fletta í síma. 

   Halldóri líkaði ágætlega við hana, hann hafði talið að þau væru ágætis félagar, en síðan frétt að hún hefði nýlega kvartað yfir vinnubrögðum hans. 

   Áður hafði Halldór fengið að vita hjá yfirmanni rannsóknardeildarinnar, Skafta, að hann væri vel metinn, álitinn fær í sínu starfi og þeim Lindu hafði verið hrósað fyrir gott samstarf. En undanfarið hafði Halldór verið í andlegu ójafnvægi, sem tengdist eflaust veikindum systur hans. Hann hafði leiðst út í það sem hann gerði þegar hann var yngri, áður en hann byrjaði í löggunni: að leita svara við erfiðum spurningum þar sem enginn annar leitaði. Hann hafði líka misst ýmislegt út úr sér í undangenginni rannsókn, þegar leitað var að goða í Ásatrúarfélaginu sem hafði horfið skyndilega eftir blót. Halldór hafði ætlað að taka sig á, hætta öllu „rugli um kukl” eins og kollegarnir höfðu orðað það. Það hafði gengið ágætlega en nú leit út fyrir að það gæti orðið erfitt. Fortíðin bankaði upp á. 

   Áður en hann steig út úr bílnum leit hann snöggvast í baksýnisspegilinn, og dæsti yfir sýninni sem blasti við honum. Svarbláir baugar eftir andvökunætur voru undir blóðhlaupnum augunum og gráleitir skeggbroddar teygðu sig upp að háum kinnbeinunum. Halldór hafði sett axlasítt, dökkt hárið í tagl. 

   Hann stakk prótínstykkinu í vasa á svarta gallajakkanum og hljóp úr rigningunni yfir til Lindu í bílahúsinu. Auðvitað var suddalegt veður. Hvað annað? Það stemmdi fullkomlega við skipulagsslysið Hamraborg í Kópavogi, og þannig hafði það verið í minningunni; suddi og súld yfir þessu stórundarlega völundarhúsi. Grá steinsteypa, mygla hér og hvar á veggjum, skörð í gangstéttum, fölnuð gul málning á vegarköntum. Á daginn hvarf fólk inn á milli húsa, annað fólk birtist skyndilega úr skúmaskotum sem reyndust síðan vera göng út frá bílahúsinu undir fjölbýlishúsunum. Þótt fjölbreyttari þjónusta væri þarna núna, jafnvel listagallerí, og þrátt fyrir tal um að Hamraborgin væri „költ”, var hún jafn grámygluleg og áður. Og ógnvekjandi. 

   „Ertu búin að lesa?” spurði hann. 

   „Aha.” Linda stakk rafsígarettunni inn á sig. 

   Þau gengu hlið við hlið í gegnum bílahúsið og þaðan niður aflíðandi steinsteypustíg í átt að dimmum og útúrspreyjuðum undirgöngunum. Halldór skotraði augunum upp á nýbyggingu sem gnæfði yfir göngunum. Áður hafði gamla skiptistöðin verið þarna. 

   „Hvaða tilfinningu hefur þú fyrir þessu?” spurði Linda. 

   Halldór hafði margt einkennilegt á tilfinningunni, en taldi ráðlegast að halda sig við staðreyndir. „Þessi undirgöng eru náttúrlega alræmd og hafa verið það lengi. Og bílahúsið líka. Böstaði ekki fíknó dílera hérna um daginn.?” 

   „Jú, einmitt,” sagði Linda. 

   „Þannig að það gæti verið að nýr og verri lýður hefði komið sér fyrir á svæðinu,” sagði Halldór. „Og greyið stúlkan hafi gengið í flasið á honum. Við getum samt lítið ályktað um það fyrr en við sjáum upptökur úr öryggismyndavélum.” 

   „Akkúrat,” samsinnti hún. 

   Einkennisklæddir lögregluþjónar stóðu hver við sinn munna ganganna og gættu þess að enginn færi inn, þótt enginn almennur borgari væri á ferli á þessum tíma. Tveir lögregluþjónar til viðbótar voru á þvælingi með leitarhunda í rigningunni. 

   Halldór renndi augum yfir undirgöngin, vettvanginn, sem tæknideildin hafði lýst upp með ljóskösturum. Veggirnir voru þaktir kroti, en þar sem hafði staðið „Junglist Massive!” og „Wu-Tang Clan Ain’t nothin’to Fuck Wit” í tíð Halldórs sem unglings í Kópavogi hafði nú verið spreyjað með rauðum stöfum „Build Your Own Pyramids, Write Your Own Hieroglyphs”. 

   Við þennan texta, sem Halldór hafði ekki hugmynd um hvað merkti, var blóðferlasérfræðingur, í hvítum slopp og með latexhanska, að mæla blóðdrefjarnar með vísindalegum aðferðum. 

   Skakkar typpamyndir og allskyns dónaskapur var þarna krotaður líka, eins og við var að búast, og sígarettustubbar lágu í hrúgum meðfram veggjunum. Í einu horni var heimatilbúin hasspípa: beygluð kókflaska með skítugum stút. Víða á gólfinu glampaði á glerbrot. Halldór leit upp í loft og sá að öll ljós voru brotin. 

   Þetta gat ekki verið tilviljun. Sömu ummerki og þá. 

   Gömul sektarkennd gerði vart við sig; sama tilfinning og hafði skyndilega komið aftan að honum kvöldið áður og valdið miklum óróasvefni. Þessari djúpstæðu sektarkennd fylgdi óhugur sem hann hélt að hann hefði fyrir löngu losað sig við. En augljóslega hafði honum ekki tekist það. Hann hafði aðeins bælt hann, grafið hann í vitund sinni. Eftir að Halldór var vakinn og fékk að vita að leiðin lægi í Hamraborg fann hann þennan óhug láta á sér kræla á ný. Og nú, þegar hann var kominn á staðinn, óttaðist hann að missa algjörlega jafnvægið. 

   En honum tókst að halda ró sinni og einbeita sér að aðalatriðinu: fjórtán ára stúlka var horfin og hana þurfti að finna. 

   Hann andaði djúpt inn um nefið. 

   Hlandþefurinn í undirgöngunum var sá sami og þá. 

(bls. 10-13) 

Fleira eftir sama höfund

hælið

Hælið

Saga sem fer á flakk um bæði tíma og rúm, þar sem drepsóttir fortíðar og aftökur í voginum koma við sögu
Lesa meira

Víghólar

Lesa meira

Ætar kökuskreytingar

Lesa meira

Saga eftirlifenda: Níðhöggur

Lesa meira

Nornasveimur

Lesa meira

Lísítsja

Lesa meira

Saga eftirlifenda: Höður og Baldur

Lesa meira

Saga eftirlifenda: Heljarþröm

Lesa meira

Gárungagap

Lesa meira