Beint í efni

Hælið

Hælið
Höfundur
Emil Hjörvar Petersen
Útgefandi
Storytel
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Allt virðist leika í lyndi hjá verslunarstjóranum Uglu, eiginmanni hennar og unglingum þeirra tveimur. Þau eru nýflutt inn í glæsilega íbúð í námunda við gamla Kópavogshælið og lífið gengur sinn vanagang. Fljótlega fara þó afar undarleg atvik að eiga sér stað sem Uglu grunar að tengist óreglusömum nágranna fjölskyldunnar, listamanninum Hrafni Vuong.

Ástandið versnar, veruleikinn er annar en hann sýnist og þegar Ugla er á barmi taugaáfalls fær hún skilaboð frá konu sem vistuð var á Kópavogshæli áður en því var lokað. Fjölskyldan er í mikilli hættu.

Úr bókinni

„Halló!" kallaði Ugla inn í íbúðina tveimur klukkustundum síðar.

   Heyrnartólin og sími Darra lágu á eldhúsborðinu. Herbergið hans stóð galopið en frá anddyrinu var ómögulegt að sjá inn í það. Á meðan Ugla klæddi sig úr skóm og jakka sagði hún háróma: „Pabbi þinn ákvað á síðustu stundu að skreppa út í bakarí. Ég nennti ekki með, ætla að hella upp á kaffi á meðan. Var að spá hvort þig langaði að smakka." Ef hún fengi börnin sín til að drekka kaffi yrðu spjallstundir með þeim fleiri.

   Ekkert heyrðist frá herbergi Darra.

   „Ertu sofnaður?"

   Ekkert heyrðist í íbúðinni nema suðið í ísskápnum og léttur regnsláttur á gluggum. Úti hafði vinnuhávaðinn þagnað og þegar hún leit út um eldhúsgluggann sá hún að verktakarnir höfðu yfirgefið framkvæmdasvæðið við trjálundinn. Dæmigert. Yfirvinna á laugardegi þurfti endilega að fara fram fyrri partinn.

   Skjótt varð Ugla óþolinmóð. Hún vissi að hún var ekki vinsælasta manneskjan í lífi sautján ára einstaklinga, en að vera ekki svarað var óþolandi.

   Hún arkaði inn í herbergið hans og bjó sig undir að smella fingri og flauta líkt og hún gerði stundum á skammdegismorgnum þegar tvíburarnir áttu erfitt með að vakna.

   Rúmið var autt en enn var dæld á rúmteppinu þar sem Darri hafði legið.

   „Darri?" sagði Ugla stundarhátt og lagði við hlustir. Rigningin jókst, það tók að hvessa og á örskammri stundu urðu rúðurnar þaktar regndropum.

   Ugla strunsaði aftur fram í anddyri og renndi augum yfir skópörin. Öll pör Darra voru á sínum stað, strigaskór og stígvél, og á snaganum héngu jakkarnir hans tveir.

   Hann hefur þá ekki farið út, hugsaði hún en sagði upphátt: „Ekki þennan fíflaskap!" Það var ekki líkt Darra að taka upp á því að fela sig, reyna að bregða fjölskyldumeðlimum eða stríða þeim á annan hátt - það hefði þó í raun verið kærkomin tilbreyting. Hann hafði aldrei verið mikið fyrir fíflalæti. Þegar hann var barn höfðu þau Leifur oft reynt að kjassast í honum og ærslast en hann vildi helst fá að dunda sér.

   Næst leit hún á símann hans en eins og hún hafði búist við var hann læstur. hún hafði ekki hugmynd hvert lykilnúmerið væri. Hana grunaði nú hvert Darri gæti hafa farið, yfir til Krumma, en vildi fyrst ganga úr skugga um að sonur sinn væri ekki í íbúðinni. Einkennilegur ótti og kvíði bærðust innra með henni, að Krummi væri að ginna son hennar til einhvers ósæmandi, en hún reyndi að bæla hugsanirnar, reyndi að týna sér ekki í óþarfa bölsýni.

   Í miðjum klíðum við að gægjast inn í hjónaherbergi fann hún kunnuglega lykt, eða daun öllu heldur: lykt af dauðhreinsiefni.

   Baðherbergið, hugsaði hún. Hann hefur hellt einhverju niður, atað sig út eða þessháttar og er að reyna að þrífa það áður en ég kemst að því.

   Áður en hún steig út úr hjónaherberginu hringdi farsíminn í veskinu. Hún andvarpaði mæðulega, staldraði við og svaraði.

   „Var það bleikt eða brúnt glassúr?" spurði Leifur. Ugla var annars hugar og umlaði bara. „Fljót," sagði hann þá. „Það er verið að afgreiða mig."

   „Bleikt. Nei, brúnt. Nei - bæði, keyptu bara bæði."

   „Er eitthvað að?"

   „Darri er með stæla," svaraði hún.

   „Nú, hvað?"

   „Ég held að hann sé að ..." Með símann upp við eyrað gekk Ugla að baðherbergisdyrunum.

   „Að hvað?" innti Leifur eftir.

   Ljósin voru slökkt á baðherberginu. Ugla kveikti og sá að allt var með kyrrum kjörum og engin merki um að Darri hafi verið þar. Dauðhreinsilyktin var horfin.

   „Ugla?" sagði Leifur. „Er allt í lagi?"

   „Hann er örugglega hjá helvítis auðnuleysingjanum," sagði hún grimmilega.

   „Ha?"

   „Hjá nágrannanum."

   „Ah, ég skil. Ég kem eftir nokkrar."

   Það sauð verulega á Uglu bæði vegna þess að Darri skyldi óhlýðnast eftir að hún hafði bannað honum að heimsækja Krumma og vegna þess að listamaðurinn skyldi voga sér að halda að það væri í lagi. Ef hann var ekki perri var hann áreiðanlega að bæta upp fyrir að vera gjörsamlega vanhæfur faðir með því að vingast við barn - ungling - sem hann þurfti ekki að bera ábyrgð á.

   Þeim mun ljótari hugsanir runnu um huga Uglu, en hún hugsaði þær ekki til enda. Fyrst ætlaði hún að berja vænlega á dyrnar hjá fíflinu.

(bls. 37-39) 

Fleira eftir sama höfund

dauðaleit

Dauðaleit

Unglingsstúlka hverfur í undirgöngunum í Hamraborg í Kópavogi og það er eins og jörðin hafi gleypt hana
Lesa meira

Víghólar

Lesa meira

Ætar kökuskreytingar

Lesa meira

Saga eftirlifenda: Níðhöggur

Lesa meira

Nornasveimur

Lesa meira

Lísítsja

Lesa meira

Saga eftirlifenda: Höður og Baldur

Lesa meira

Saga eftirlifenda: Heljarþröm

Lesa meira

Gárungagap

Lesa meira