Beint í efni

Emil Hjörvar Petersen

Æviágrip

Emil Hjörvar Petersen fæddist í Gautaborg í Svíþjóð, 7. maí 1984. Hann fluttist til Reykjavíkur tveimur árum síðar og þaðan í Kópavog þar sem hann ólst að mestu upp. Hann lauk B.A.-gráðu í almennri bókmenntafræði – með íslensku og skapandi skrif sem aukafag – árið 2007. Einnig M.A.-gráðu í hagnýtri ritstjórn og útgáfu, 2009. Þá flutti hann til Svíþjóðar og bjó þar í áratug og tók M.A.-próf í Literature-Culture-Media frá Háskólanum í Lundi, 2011.

Emil er einn af stofnendum Icecon – furðusagnahátíðar á Íslandi, en sú fyrsta var haldin árið 2016. Hann hefur verið ötull í því að kynna heim furðusagna, í fyrirlestraröðum og ritsmiðjum, t.d. í samstarfi við Reykjavík bókmenntaborg UNESCO. Þar hefur hann lagt áherslu á skrif furðusagna á íslensku.

Undanfarin ár hefur Emil helgað sig ritstörfum, en hann hefur gefið út ljóðabækur og skáldsögur. Jafnframt hefur hann starfað sem ritstjóri, textasmiður og fyrirlesari. Hann hefur ritstýrt skáldverkum, hannað námsefni og komið fram víða hérlendis og erlendis og rætt mest um efni tengt furðusögum.

Emil býr nú í Kópavogi og heldur úti vefsíðunni: www.emilhpetersen.com