Beint í efni

Ómynd

Ómynd
Höfundur
Eyrún Ýr Tryggvadóttir
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Helga Birgisdóttir

Ómynd er þriðja glæpasaga Eyrúnar Ýrar Tryggvadóttur fyrir fullorðna og fjallar, líkt og hinar fyrri, um blaðakonuna Andreu. Hinar fyrri eru Hvar er systir mín? (2008) og Fimmta barnið (2009) sem báðar voru tilnefndar til Blóðdropans, verðlauna Hins íslenska glæpafélags og eru fínustu glæpasögur.

Ómynd hefst þremur vikum fyrir jól og Andrea hlakkar lítið til jólanna og er það ekki skrítið:

Eftir missi systur sinnar, frænku og elskhuga á einu bretti fyrir rúmum tveimur árum átti hún erfitt með að gleðjast á hátíðum. Misheppnað samband hennar við lögreglumanninn Ingþór síðasta sumar bætti ekki úr skák (bls. 14).

Það hvílir margt á Andreu eins og títt er um söguhetjur skandinavískra glæpasagna og nægir t.d. að minnast á Erlend úr bókum Arnaldar Indriðasonar og Anniku Bengtzon í glæpasögum Lizu Marklund. Blaðakonan Andrea er dregin skýrum dráttum í Ómynd en hún er langt frá því að vera skellihlæjandi hamingjubomba og hvað þá gallalaus, enda passar slíkt ekki inn í frásagnarformið.

Andrea er buguð en hún er ekki brotin. Hún hefur rífandi áhuga á blaðamannsstarfinu og stekkur til þegar tilkynnt er um barnsrán á Akureyri. Hún flýgur til Akureyrar án þess að ræða við ritstjóra sinn og er þegar komin skrefinu lengra en aðrir blaðamenn sem fylgjast með málinu því frænka hennar, Signý, þekkir til móður barnsins sem rænt var. Sú kona er pólsk og á sér flókna og dularfulla sögu sem hún hefur reynt eftir fremsta megni að halda leyndri fyrir öllum – meira að segja eiginmanni sínum.

Glæpamenn úr fortíð konunnar dúkka upp á yfirborðið og um leið útlendur glæpahringur og ólöglegur nektardansstaður. Um leið og fjallað er um barnsránið á Íslandi er rifjuð upp sorgleg saga pólsku konunnar, sem eflaust á sér ótal raunverulegar hliðstæður, og finnst mér Eyrúnu takast hvað best upp með þá frásögn sem er kuldaleg og ansi skelfileg en um leið óhuggulega raunveruleg.Það eru margir boltar á lofti í Ómynd en höfundi tekst ansi vel að halda þeim á flugi. Atburðir og persónur sem virðast aðskilin eiga sér sameiginlega sögu eða tengjast á einhvern hátt og e.t.v. er það boðskapur sögunnar að allt sem við gerum (ekki) eða segjum (ekki) hefur áhrif á aðra í kringum okkur. Það er helst út á það að setja að kaflarnir eru helst til stuttir, lesandi hefði þegið að vita meira – en það kemur kannski í næstu bók.

Inn í alla glæpaþræðina fléttast samskipti Andreu og Ingólfs, lögreglumannsins sem hún hafði átt í misheppnuðu sambandi við sumarið áður. Ástæður þess að það samband fór út um þúfur virðast meira og minna byggðar á tilviljunum og því að fólk talar ekki saman og er þetta sá þáttur sögunnar sem ég hefði einna helst viljað að höfundur ynni betur úr.

Ómynd er ágætlega skrifuð og spennandi glæpasaga þar sem fjallað er um vanda- og átakamál samfélagsins. Fjallað er um skelfilega glæpi – mansal, mannrán og glæpahringi – í rammíslenskri glæpasögu sem minnir okkur óþægilega á að hér á ýmislegt sér stað sem maður hefði ekki getað ímyndað sér fyrir nokkrum áratugum að yrði hluti af íslensku samfélagi.

Helga Birgisdóttir, janúar 2012