Beint í efni

Humátt

Humátt
Höfundur
Guðrún Hannesdóttir
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Þjóðsagan gengur ljósum logum um ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur, humátt. Fyrri ljóðabækur hennar hafa heimsótt sagnir og ævintýri, eins og í Slitur úr orðabók fugla frá síðasta ári, en þar voru sagðar sögur af fuglum, eða réttara sagt endursagðar, því Guðrún hefur sérstakt lag á því að taka þjóðsögur, ævintýri og sagnir og smíða úr þeim nýja gripi.

Þetta sést vel í humátt, en meginþorri ljóðanna er byggður á þjóðsögum og sögnum af ýmsu tagi. Strax í fyrsta ljóðinu, „klukka“, er tónninn sleginn en þar er sagan um djáknann frá Myrká undirliggjandi. Í meðförum Guðrúnar verður þetta hvatningarljóð til kvenna að láta ekki kúga sig, þeim er sagt að hlaupa undan hramminum á öxlinni og heljargreipunum „sem fálma eftir skikkjunni“ og grípa klukkustrenginn og hringja með látum:

því ill er og kæfandi
að liggja undir lifandi dauðum

Nafna Guðrúnar, sem djákninn kallar Garúnu af því sem afturganga getur hann ekki sagt orðið ‚guð‘, nær einmitt af henni skikkju þegar hann ætlar að taka hana með sér í gröfina en Guðrún sleppur undan honum með því að hringja kirkjuklukkunni. Annan femínískan tón má greina í ljóðinu „jafnrétti (af fjöllum“, en það má lesa sem ákall til tröllskessa að láta taka til sín í jarðfræðinni: „nístum steinana! myljum fjötrana!“, því flekarnir hreyfast hægt og ekki dugir að láta aldirnar líða áfram óáreittar: „bættur skaðinn / þó glitti í logandi / kviku“.  Það er einnig freistandi að lesa ljóðið „önnur algeng tegund“ sem krítíska úttekt á karlmanni: „hvasseygur / brúnaþungur“, „dimmraddaður / myndugur / þéttur í lund“, en „auðþekktur þegar / á hólminn er komið / af brauðfótum / sérhlífni, vænisýki“. Hann er með svikult merarhjarta og skilur eftir sig týnda loforðaslóð. Hér gæti reyndar verið átt sérstaklega við þá manntegund sem kallar sig stjórnmálamann.

Þessi tvö síðari ljóð sýna einnig þann sérstakla og lúmska húmor sem einkennir ljóð Guðrúnar, jafnréttisljóðið birtir annað einkenni ljóðanna í humátt, það hvernig náttúran og þjóðsagan falla saumlaust saman.

Sum ljóðanna vísa til þekktra sagna, eins og ljóðið um Guðrúnu og djáknann. Þar má nefna „fréttatilkynningu“, en þar er sagt frá reglulegum heimsóknum nykursins í Hafravatni til Reykjavíkurtjarnar. Hvort sem hann hefur hitt félaga sinn úr nykrastétt þar er látið ósagt en skyndilega verður ljóst að nykrarnir eru orðnir fleiri en einn: „fara um laumulega, álút og silfurgrá að lit og eru menn beðnir að hafa / varann á einkum í grennd við sundstaði“. Í öðrum er vísað til margvíslegra fyrirbæra þjóðsagnanna: sagnaranda, véfréttir, galdrastafa, drauma og trúar á jurtir og dýr. „gamall varnargaldur“ lýsir aðferðum við að koma sér hjá yfirnáttúrulegum hættum:

söfnum mávastelli
postulaskeiðum
setjum upp púða
krosssaumaða
klukkustrengi
posturlínsstyttur
í gluggakistur
allt á sinn stað

Hér er hinu borgaralega lífi stillt upp sem varnargaldi, en ásókn vafasamra afla er sérlega skæð um jólin:

söfnum servíettum
sykurtöngum
jólaskeiðum
bónum gólfin
svo þau tindra
fáum okkur aldrei
tvisvar af sömu sort
í öðrum húsum

Loks er vísað til kunnuglegrar reglu frá minni barnæsku: „ slökkvum aldrei / í miðjum þjóðsöng“ og ef öllu þessu er haldið til haga „mun þá engan saka“.

Vissulega eru ekki öll ljóðin jafnstungin þjóðsagnaminnum, í sumum þeirra er það fyrst tungumál þjóðsögu og fornsögu sem setur svip á ljóðið. Þetta er beinlínis tekið fram í ljóðinu „hvísl“:

tölum saman á máli skugga
eðalsteina
bergmáls
brotinna fjaðra

ég hef hengt bjöllur á sólargeislana
þær gera okkur viðvart um leið og birtir

Þarna má sá hvernig þjóðsagan tilheyrir myrkrinu, og svo er gripið til kunnuglegrar sögu um mýs og kött til að forðast óþarfa truflanir ljóssins sem löngum hefur verið helsti óvinur vætta og óvætta.

Svipaða hugsun má sjá í lokaljóði bókarinnar, „dyr“:

lokið dyrum dauðans hægt
á eftir ykkur
vekið ekki þá sem lifa

blómin lýsa veg þeirra
vatnið niðar þeim enn í eyrum
ljósið leikur um höfuð þeirra
og grasið ilmar þeim

enn

Fyrir utan að vera einskonar ‚memento mori‘ ljóð sem minnir á hverfugleika lífsins, þá er hér einnig verið að minna á þessi mörk myrkurs og ljóss, og þau ólíku fyrirbæri sem búa í hvorum heimi fyrir sig. Vættir jafnt sem óvættir tilheyra heimi myrkursins – og dauðans – en þau sem enn lifa eru umlukin birtu og lifandi náttúru.

Fyrir utan femínísku ljóðin er ekki eins mikil pólitík í ljóðum Guðrúnar og eins og til dæmis í stöðum frá 2010 þar sem þjóðsagan var óspart notuð til að deila á gróðærið og hrunið. Hér fá sagnirnar meira að leika lausum hala, þó vissulega megi víða sjá merki ádeilu. Ádeilan birtist vel í stuttu ljóði sem nefnist „spurning“:

má ekki frekar bjóða ykkur
logagyllta flæðarmús,
lítið notaðar nábrækur?

Nábrækur og flæðarmýs eru bankar og verðbréfahallir síns tíma, fyrirbæri sem draga að sér fé, og gera má ráð fyrir að ferlið feli í sér einhverskonar arðrán. Í báðum tilfellum er þjófnaður grunnurinn að því að afla sér þessara fjáröflunarleiða. Léttleikinn í spurningunni tekur því fljótt á sig aðra mynd og vísar til þeirra sem sanka að sér auðfengnu fé, með hvaða aðferð sem býðst.

Á þennan hátt endursegir Guðrún hinn sakleysislega og jafnvel heilga menningararf notar hann til að endurskoða og endurnýja kunnugleg fyrirbæri, setja þau í nýtt samhengi og jafnframt gefa sögnunum nýtt líf og nýjar víddir með því að skoða þær í ljósi (eða öllu heldur myrkri) nútímans. Þannig er þjóðsagan og ævintýrið notuð sem einskonar spegill, rannsóknartæki eða jafnvel skurðhnífur.

úlfhildur dagsdóttir, desember 2015