Beint í efni

Guðrún Hannesdóttir

Æviágrip

Guðrún Hannesdóttir fæddist þann 18. júní árið 1944. Hún lauk stúdentsprófi frá MR árið 1964, nam listasögu við háskólann í Lundi frá 1968-70 og lauk BA-prófi í bókasafnsfræði frá Háskóla Íslands árið 1979. Sem bókasafnsfræðingur hefur Guðrún meðal annars haft umsjón með bókasafni Myndlistarskólans í Reykjavík.

Guðrún sendi frá sér bókina Gamlar vísur handa nýjum börnum árið 1994, en þar safnaði hún saman vísum fyrir börn og myndskreytti. Upp frá því hefur hún unnið við ritstörf og myndskreytingar eigin bóka fyrir börn meðfram bókasafnsstarfinu. Hún hefur einnig safnað alþýðukveðskap úr skriflegri og munnlegri geymd og birt í þremur bókum, ritað ljóð og greinar í tímarit og sent frá sér ljóðabækur. Guðrún hefur auk þess sýnt myndir sínar á sam- og einkasýningum hér á landi og víða erlendis.

Guðrún sat lengi vel í stjórn samtakanna Barna og bóka, Íslandsdeildar IBBY-samtakanna, sem og í ritstjórn tímaritsins Börn og menning, sem samtökin gefa út. Hún hefur hlotið verðlaun fyrir bæði skrif sín og myndskreytingar, þá helst Íslensku barnabókaverðlaunin ásamt Sigrúnu Helgadóttur árið 1996 fyrir Risann þjófótta og skyrfjallið, sem Guðrún myndskreytti; og Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2007 fyrir ljóðið „Offors.“ Árið 2021 hlaut Guðrún Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir þýðingu sína á bókinni Dyrnar eftir ungversku skáldkonuna Mögdu Szabó.