Beint í efni

Fimmta barnið

Fimmta barnið
Höfundur
Eyrún Ýr Tryggvadóttir
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Áhrif norrænna glæpasagna eru greinileg í sögu Eyrúnar Ýrar Tryggvadóttur, Fimmta barnið. Annarsvegar er söguhetja hennar frá fyrri bók, Andrea, orðin blaðakona fyrir síðdegisblað og minnir í háttum nokkuð á hina horuðu og taugaveikluðu Anniku Bengtzon sem lesendur norrænna krimma þekkja úr verkum Lizu Marklund og hinsvegar fjallar sagan um sölu á börnum til ættleiðingar, en um það fjallar einmitt danska framlagið til Norrænu glæpasagnaverðlaunanna frá í fyrra, Drengen i kufferten eftir Lene Kaaberbøl og Agnete Friis. Það er þó ekki leiðum að líkjast og hvort sem áhrifin eru meðvituð eða ekki þá vinnur Eyrún ágætlega með efnið og heimfærir á sannfærandi hátt uppá íslenskan veruleika.

Sagan hefst á því að barnslík finnst í frystikistu og í krafti samkeppni við annan blaðamann fer Andrea að rannsaka málið uppá eigin spýtur, en vegna kreppu er þröngt í búi á blaðinu. Í ljós koma ýmis óskemmtileg leyndarmál fortíðar, en sagan snýst að miklu leyti um leynilegt heimili fyrir ungar stúlkur sem hafa orðið barnshafandi, heimili sem tryggir að ástand þeirra spyrjist ekki út og börnunum er svo komið í fóstur, með eða án vilja mæðranna. Þrátt fyrir að heimilinu hafi nú löngu verið lokað þá eru afleiðingarnar enn til staðar og meðal annars kemst Andrea að því að sum barnanna voru beinlínis seld í fóstur, ríku fólki sem þráði barn og var tilbúið að greiða háar upphæðir til að eignast það, jafnvel í trássi við lög og rétt.

Inn í málið blandast svo einnig ástamál Andreu líkt og í fyrri bókinni, en sagan sver sig í ætt þeirra sagna sem eru einskonar blanda af ástarsögu og spennu. Þó eru ástamálin fyrirferðarminni hér og í heildina séð er Fimmta barnið fremri Hvar er systir mín? sem Eyrún sendi frá sér fyrir síðustu vertíð. Textinn er slípaðri og dramatíkin heflaðri. Samspil Andreu við aðrar persónur sögunnar, svosem samstarfsfólk, frænku og lögreglumenn, virkar vel, og rannsókn hennar er nokkuð sannfærandi útfærð.

Þannig er Eyrún ágætur arftaki Birgittu H. Halldórsdóttur sem í tæpa tvo áratugi sá að mestu leyti ein um að halda íslenskri glæpasagnahefð gangandi. Það er synd að þetta mikilvæga framlag Birgittu til íslenskra bókmennta virðist nú að mestu gleymt, en frá árinu 1983 til ársins 2004 sendi hún frá sér spennusögu árlega og ruddi þannig brautina fyrir þá glæpasagnabylgju sem hefur orðið íslenskum bókmenntum svo þörf innspýting, bæði hvað varðar aukna fjölbreytni í bókmenntalandslaginu og snarpar úttektir á málefnum samtímans. Eyrún er einmitt einn af nýjustu höfundum þessarar bylgju og fylgir þeirri línu að nýta glæpasöguformið til að fjalla um félagsleg vandamál og erfið átakamál í samfélaginu.

Úlfhildur Dagsdóttir, janúar 2010