Beint í efni

Carpe diem

Carpe diem
Höfundar
Eyrún Ýr Tryggvadóttir,
 Kristjana María Kristjánsdóttir
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Helga Birgisdóttir

Í unglingaskáldsögu þeirra Eyrúnar Ýrar Tryggvadóttur og Kristjönu Maríu Kristjánsdóttur, Carpe diem, segir frá Birnu sem er nýflutt inn til móðurömmu sinnar ásamt móður sinni og litla bróður eftir að fjölskyldan missti leiguíbúð sína í Breiðholtinu vegna vanskila. Mamman drekkur mikið og hugsar lítið um heimilið og börn sín, enda kemur fram að hún hugi aldrei að kvöldmatnum fyrr en klukkan sé að verða hálf sjö. Föður sinn hefur Birna ekki séð árum saman. Hallgrímur, hin aðalsöguhetja Carpe diem, er öllu lukkulegri. Hann á prýðisgóða foreldra og móður sem er frábær kokkur. Birna og Hallgrímur taka fyrst hvort eftir öðru á grímuballi í skólanum, Birna í rifnum svörtum ruslapoka en Hallgrímur í rándýrum sjóræningjabúningi. Þau falla hvort fyrir öðru en ýmislegt kemur í veg fyrir að þau geti lifað hamingjusöm til æviloka.

Birna er feimin og lítil í sér, saknar vina sinna úr Breiðholtinu auk þess sem hún líður fyrir endalausa drykkjutúra móður sinnar og brostin loforð. Lesendur eru því fegnir þegar þau Hallgrímur ná saman en sú sæla er skammvinn því að Konni, nýr kærasti móðurinnar, áreitir Birnu kynferðislega sem skilur eftir sig sár á líkama og sál. Þegar móðirin vill að þær og litli bróðir fari að búa með Konna flýr Birna að heiman og gerir tilraun til sjálfsvígs. Til allrar hamingju kemur Hallgrímur í tæka tíð og Birna endar inni á sjúkrahúsi þar sem hún kemst blessunarlega til meðvitundar. Birna býr hjá ömmu upp frá þessu og þótt þau Hallgrímur séu formleg par þarf hann að halda að sér höndum því að Birna er enn að jafna sig eftir árás Konna. Þegar nálgast jólin losar þó um hömlur og þau finna á sér að bráðum muni þau ganga alla leið, en þá setur slys óvænt strik í reikninginn.

Söguþráðurinn er spennandi en skautað er ansi hratt yfir hvern og einn viðburð sögunnar og illa unnið úr þeim. Persónusköpun er einnig heldur grunn. Það er erfitt að ná sambandi við aðalpersónurnar, einkum þó Hallgrím sem þó svo að vera önnur aðalpersóna sögunnar er dreginn afskaplega óskýrum línum. Móðir Birnu er einnig þokukennd persóna og ósannfærandi sem og samskipti þeirra mæðgna. Ljóst er að framkoma og hegðun móðurinnar hefur haft mikil áhrif á Birnu, hvernig hún er og hvernig henni líður, og þennan þátt sögunnar hefðu höfundar mátt vinna betur úr. Jafnframt er lítið rætt um samband þeirra Birnu og Hallgríms eftir að hún rankar við sér á spítalanum. Fram kemur reyndar að hún sé viðkvæm og vilji ekki stunda kynlíf en gott hefði verið að kafa dýpra í það hvernig ungt og ástfangið par vinnur sig út úr jafn alvarlegum málefnum og kynferðisleg misnotkun og sjálfsvígstilraun eru.

Carpe diem er nútímaleg saga og söguhetjur hafa samskipti í gegnum sms og Fésbók. Baksíða bókarinnar er sett upp þannig að hún lítur út eins og veggur eða prófíll aðalsöguhetjunnar Birnu. 46 hafa smellt á „like” og fyrir neðan eru fimm athugasemdir (tilbúinna?) aðdáenda bókarinnar. Í athugasemdunum er að finna orð eða setningar eins og „NICE! Stórt like“, „Osom bók 4U ;)“ og „Gegt“. Það er alvanalegt að sjá slettur eins og þessa á Fésbók, þar sem talmál leyfist frekar en á öðrum miðlum, en þessar athugasemdir eru nokkuð lýsandi fyrir málfar bókarinnar, sem hefst á orðunum „Sjitturinn! Helvítis fokking fokk!“ (5). Því miður falla höfundar unglingabóka oft í þá gryfju að reyna að líkja eftir málfari unglinga í því skyni að höfða betur til þeirra. Þessar tilraunir verða oft hjákátlegar þar sem blandað er saman talmáli og svo ritmálslegri stíl. Það á við í þessu tilfelli, einkum þar sem umfjöllunarefnið er mjög viðkvæmt.

Bókina hefði að ósekju mátt lesa betur yfir, eins og blasir við á baksíðu þar sem segir „Carpe diem þýðir að grípa daginn“. Þetta er augljós þýðing á enskum frasa og eðlilegra væri að segja „gríptu tækifærið“ en titill bókarinnar vísar væntanlega til þess að við vitum aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér — eigum við nokkra framtíð? — og því best að lifa lífinu lifandi. Framtíð aðalsöguhetjunnar Birnu er hins vegar með öllu hulin vegna þess hvernig bókinni lýkur. Ekki er unnið úr ýmsum óleystum vandamálum, svo sem sambandi hennar og Hallgríms, sambandi hennar við móðurina eða eftirköstum árásarinnar.

Í Carpe diem er fjallað um ástir unglinga, vanrækt börn, misnotuð börn og kynferðislega áreitni. Óhófleg áfengisneysla kemur við sögu og augljóst er hversu skaðleg áhrif hún getur haft. Carpe diem hefur alla burði til að vera prýðisgóð unglingasaga en nær því miður varla nokkru flugi, tækifærin eru til staðar en þau eru ekki nýtt eða þeim er glatað.

Helga Birgisdóttir, desember 2011