Beint í efni

Ariasman: frásaga af hvalföngurum

Ariasman: frásaga af hvalföngurum
Höfundur
Tapio Koivukari
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2012
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Í raun ætti þessi titill að vera ‚saga af samskiptaleysi‘, en það væri þó heldur ekki rétt nema að takmörkuðu leyti, því fjölbreytt samskipti einkenna skáldsögu finnska rithöfundarins Tapio Koivukari, Ariasman: frásaga af hvalföngurum. Fyrir utan þau samskipti Íslendinga og Baska sem sagan fjallar um er hér einnig um að ræða annarsskonar samskipti, þau sem felast í því að finnskur höfundur skrifi sögulega skáldsögu um það sem hann í eftirmála íslensku útgáfunnar með réttu nefnir „fjöldamorð“ (438) á Íslandi. Ein samskiptin enn eru svo þau þegar íslenskur þýðandi, Sigurður Karlsson, tilfærir úr finnsku yfir á íslensku, með þeim lesvæna bravúr sem lesendur eru farnir að kannast við frá honum.

Þó er ljóst að samskiptaleysi er lykilatriði í verkinu, því það lýsir því hvernig skortur á samskiptum, og slæm samskipti sem komin eru til af ýmsum ástæðum, verða þess valdandi að fjöldamorð eru framin: en eins og Koivukari bendir á eru Spánverjavígin (árið 1615), viðfangsefni skáldsögunnar Ariasman, ekkert annað en fjöldamorð. Baskneskum hvalföngurum, skipsbrotsmönnum við strandir Íslands, var einfaldlega slátrað, og hvort sem lýsingarnar (teknar úr samtímaskrifum) eru orðum ýktar eða ekki er ljóst að hér er um að ræða andstyggilegt illvirki.

Titill sögunnar, Ariasman, gefur til kynna að höfuðpaurinn á bakvið slátrunina hafi verið ‚vestfjarðakóngurinn‘ Ari í Ögri, en Ariasman er heitið sem Baskar gáfu honum. Í verkinu kemur fram að Ari er bæði gráðugur á fé og völd og selur Böskum veiðileyfi í stórmennskuþótta sínum. Þegar það rennur af honum rifjast upp að kóngsleyfi þarf til, og grípur hann því til örþrifaráða til að vernda eigið skinn. Sekt Ara hefur verið vinsæl kenning og kemur meðal annars fram í skáldsögu Sjóns, Rökkurbýsnum (2008), en sú er einnig söguleg skáldsaga og byggir á ævi Jóns lærða Guðmundssonar, sem í bók Koivukari nefnist Jón málari. Þar eru þó vígin ekki til umfjöllunar sem slík, heldur frekar sá eftirmáli þeirra að Jón (sem í Rökkurbýsnum nefnist Jónas), er hrakinn í útlegð af Ara og fylgismönnum hans eftir að hafa skrifað óvægin rit um drápin. Þrátt fyrir að sök Ara sé vissulega dregin fram er einnig eftirtektarvert að Koivukari hafnar einföldum ‚lausnum‘ og dregur fram í hnausþykkri sögu sinni margvíslegar hliðar á málinu. Til dæmis lætur hann fara fyrir Böskum ungan og óreyndan, en afar metnaðargjarnan og stoltan skipstjóra, sem brást ekki sem skyldi við aðstæðum. Einnig er mikil áhersla lögð á að almenn fáfræði og fordómar eyþjóðarinnar, að ekki sé talað um græðgi og heimóttarskap, léku mikilvægt hlutverk í þeirri atburðarás sem leiddi til fjöldamorða á erlendum mönnum sem leituðu skjóls við strendur landsins einfaldlega vegna þess að þeir áttu ekki í önnur hús að venda. Lái mér hver sem vill en ég á ekki erfitt með að lesa ýmis samtímamál í spegli íhugulla lýsinga finnska höfundarins á heimsmynd Íslendinga snemma á sautjándu öld.

Þó Rökkurbýsnir hafi hér verið nefndar er tæplega hægt að hugsa sér ólíkari verk og segir það sitt um þá fjölbreyttu skepnu sem sögulega skáldsagan er. Frásögn Koivukari er raunsæ, en Sjóns ekki, svo ekki sé meira sagt. Markmið verkanna, ef tala má um markmið skáldverka yfirleitt, eru líka gerólík: þar sem Sjón leggur helsta áherslu á að teikna upp heimsmynd sautjándu aldar er saga Koivukari sögulega línuleg lýsing á aðdraganda blóðugrar atburðarásar. Til að ná fram sem flestum hliðum sögunnar gerist hún bæði á Íslandi og á Spáni, þaðan sem Baskarnir sigla, og fyrir utan að fjalla um sögulegar persónur, meðal annars Ara í Ögri og Jón málara, er nokkur áhersla lögð á að segja söguna útfrá hversdagshetjum, hinni ungu og íslensku Kristrúnu og unga Baskanum Gartzia. Allt eykur þetta á raunsæisyfirbragð verksins og gefur þétta og sterka mynd af atburðarásinni, auk þess að lýsa vel hversdeginum, aðstæðum bænda á Íslandi og baskneskra sjómanna.

Það voru þó lýsingarnar á hvalveiðunum og –vinnslunni sem fönguðu mig hvað mest; ‚ung var ég gefin Moby Dick‘ og hef æ síðan verið hrifin af hvölum (þó Greenpeace og álíka væmnilið hafi gert sitt til að turna mér gegn þeim). Vissulega er Koivukari flínkur í að lýsa persónum en þó nær færni hans næstum ævintýralegum hæðum í nálgun hans á hvalfiskana og fangbrögð veiðimannanna. Það er helst þarna sem þeir ná saman, texti Sjóns og Koivukaris, í því að fylla tungumálið efnislegum eiginleikum sem ekki aðeins skapar verkunum aukinn kraft heldur býður upp á áþreifanlega lestrarupplifun – inngöngu í heim saltvatns, ullarsokka og gnægta af blóðugu kjöti. Lýsingarnar á slátrun hvalanna eru svo að sjálfsögðu viðeigandi aðdragandi að vígunum sjálfum, en ekki má heldur gleyma því að blóð Baskanna fann sér (blessunarlega) aðra farvegi.

úlfhildur dagsdóttir, apríl 2013