Beint í efni

Við gluggann

Við gluggann
Höfundur
Fríða Á. Sigurðardóttir
Útgefandi
Skuggsjá
Staður
Hafnarfjörður
Ár
1984
Flokkur
Smásögur

Úr Við gluggann:

Hann sat við gluggann og starði út í myrkrið tómum augum. Sá ekki einu sinni gluggalausan steinvegginn í blokkinni á móti sem reis í gegnum svartnættið eins og snarbrött grjótskriða, grá og lífvana. Ekkert hljóð heyrðist nema hvissið þegar hann kveikti sér í nýrri sígarettu.
 Honum var orðið hrollkalt og hann hnipraði sig saman í stólnum. Dró sig saman eins og snigil inn í þykkan frakkann sem hann hafði gleymt að fara úr þegar hann kom inn. Hann fann rakann frá honum smjúga í gegnum peysuna inn í húðina og blautar gallabuxurnar vefja sig fast utan um fæturna, en hann lét sig það engu skipta heldur starði sjónlaust út um gluggann og forðaðist að líta í áttina að símanum sem alltaf þagði jafnþrjóskulega. Nú voru liðnir meira en þrír tímar.
 “Já, en við vorum orðin sammála um þetta elskan, og ég vil heldur að þú farir,” hafði Ella sagt í fortölutón. “Þú mundir bara trufla mig, það er alveg satt. Farðu heim, gerðu það, þær hringja um leið og þetta er búið.”
 Hún hafði verið svo ókunnugleg þarna. Svo allt öðruvísi en venjulega. Það hafði ruglað hann ennþá meira í ríminu.
 Þrír tímar. Næstum þrír og hálfur. Og síminn þagði. Þagði og þagði. Hann teygði sig snöggt eftir tólinu. Jú, það var sónn. Það var allt á ringulreið inni í höfðinu á honum. Allt svo óraunverulegt. Honum leið líkt og hann væri enn á harðahlaupum. Eins og hann gæti alls ekki stoppað hvernig sem hann reyndi. Það var þessi kerling. Og Ella svo orðin veik. Þrír og hálfur tími. Þetta gerðist allt svo fljótt. Hann var einhvern veginn svo langt á eftir. Eins og hann væri enn að reyna að sleppa undan þessum stingandi augum sem héngu á honum eins og blóðsugur. Slepptu honum ekki. Nei, hann ætlaði ekki að hugsa meira um það. Vildi það ekki.
 Þetta hafði allt gerst svo hratt. Allt hvað ofan í annað. Eins og kvikmynd á of miklum hraða. Og nú sat hann hér einn og beið. Síminn þögull eins og steinn. Hvað tók þetta yfirleitt langan tíma? Kannski hann ætti að hringja í mömmu? Hann var svo einn. Svo aleinn. Með þetta allt innan í sér eins og þungan kökk.

(s. 115-116)

Fleira eftir sama höfund

Morgengrauen

Lesa meira

Der Sprung

Lesa meira

Eins og hafið

Lesa meira

Maríuglugginn

Lesa meira

Meðan nóttin líður

Lesa meira

Meðan nóttin líður

Lesa meira

Mens natten går

Lesa meira

Saga í Sen dess har jag varit här hos er : 12 isländska noveller

Lesa meira

I en sluten värld

Lesa meira