Beint í efni

Meðan nóttin líður

Meðan nóttin líður
Höfundur
Fríða Á. Sigurðardóttir
Útgefandi
Forlagið
Staður
Reykjavík
Ár
1990
Flokkur
Skáldsögur

Bókin hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 1990 og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1992. Einnig gefin út í kilju 1991 og kennsluleiðbeiningar með sögunni komu út 1992.

Af bókarkápu:

Hún situr við rúm deyjandi móður. Nína, glæsileg, örugg – sannkölluð nútímakona. Að maður skyldi halda. En á meðan nóttin líður vanka spurningar, efi og gamlar sögur, gamlar myndir brjóta sér leið yfir fjöll og skriður. Sögur og myndir sem Nína reynir að bægja frá sér því:

Veruleikinn er nógur erfiður þó ekki sé verið að flækja hann í alls kyns hjátrú og hindurvitnum.

En enginn er eyland og einhlítur sjálfum sér. Samt reynist Nínu erfitt að horfast í augu við það að hún er einn liður í langri röð kynslóðanna. Vill ekki leyfa arfinum að lýsa sér leiðina.

Fyrir sögu sína hlaut skáldið Íslensku bókmenntaverðlaunin 1990 og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1992.

 Úr Meðan nóttin líður:

Línudans. Hyldýpið undir.
Ég fór fram. Leitaði uppi klósettið og fór þangað inn. Varð að komast burt úr þessu herbergi. Leið ekki vel. Sat á hvítri setunni og hlustaði á bununa, horfði á hendurnar á mér, og það voru mínar hendur, stóð upp og gyrti mig og sturtaði og leit svo í spegilinn, og það var mitt andlit, andlit Nínu sem trúir því sem hún sér, því sem hún getur þreifað á, snert. Nínu sem veit að tíminn er röð augnablika en ekki á sem hægt er að stíga niður í eftir vild, að hún stendur hér og nú á þessu flísalagða klósettgólfi og horfir á andlit sitt í spegli, og að síðan mun hún fara aftur inn í herbergið með stálrúminu og blómunum og sitja þar meðan nóttin líður.
Veit það, Nína. Vissi það. Hafði allt á hreinu, vissi hvar hún stóð, áður en hún villtist hingað inn; inn í þessa grænleitu birtu fulla af þögn og hreyfingu og háværum dyn eins og vatnsflaumur streymandi fram, aldrei kyrr, dregur hana með, Nínu, sem veit að veruleikinn er áþreifanlegur, lífið útskýranlegt, allt annað rugl.
Skildi eftir heima gamalt sjal, og sprautar á sig ilmi Oscar de la Renta til að kæfa beiska lykt af mold og sýru og sagga, ísúra lykt sem fylgir gömlum sögum, ætlar ekki að láta villa sig í dans.
Horfir á andlit í spegli og hraðar sér inn gang. Bakatil óljós hugsun um Andrés og kjúklingabringur og avókadósalat bíðandi í ískáp, skyndilega glorsoltin. Lægi við hlið Andrésar nú, mett, fullnægð, áhyggjulaus, ef allt væri með felldu. Hugsar, ekkert er með felldu, og hraðar sér inn gang, hungurverkir í kviðnum, og rekst á Margréti. Sem hló, sagði: “Þú ert að villast.” Og ég leit í kringum mig og sá að það var rétt. Var komin á einhvern allt annan gang. Og Margrét leit snöggt á mig, spurði: “Er eitthvað að?” “Að?” sagði ég, “nei, auðvitað ekki.” En hún horfði rannsakandi á mig, sagði: “Þetta er erfiðara en margur heldur.” Og andartak óttaðist ég að hún ætlaði að fara að skella á mig einhverju um hringrás lífsins eða að dauðinn væri aðeins lífið í annarri mynd, kannski jafnvel koma með líf eftir dauðann. Og þoldi ekki tilhugsunina. Þoli ekki þessar klisjur sem fólk notar til að hugga sig við, af því það þorir ekki að horfast í augu við þá staðreynd að það lifir, og það deyr, og þar með búið. Svo ég sagði: “Hvað? Að deyja?” Og hún leit undan, muldraði eitthvað sem ég heyrði ekki, fór.

(s. 94-96)

Fleira eftir sama höfund

Morgengrauen

Lesa meira

Der Sprung

Lesa meira

Eins og hafið

Lesa meira

Maríuglugginn

Lesa meira

Meðan nóttin líður

Lesa meira

Mens natten går

Lesa meira

Saga í Sen dess har jag varit här hos er : 12 isländska noveller

Lesa meira

Við gluggann

Lesa meira

I en sluten värld

Lesa meira