Beint í efni

Usli: Gjálífi, þrætur og þras

Usli: Gjálífi, þrætur og þras
Höfundur
Úlfar Þormóðsson
Útgefandi
Bjartur-Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Ásmundur Gunnlaugsson fæddist að Ríp í Hegranesi þann 10. febrúar 1789. Hann lærði til prests, gerðist kapilán vestur í Dölum og fékk síðan brauð á Siglufirði. Dvöl hans þar einkenndist af drykkjuskap og erjum við sveitungana. Hann þótti einkar og svipljótur maður en eigi að síður var hann mikill kvennaljómi og varð það rót margra deilna. Ásmundur var sviptur kjól og kalli fyrir margra hluta sakir og hrökklaðist yfir í Skagafjörð þar sem hann átti margbreytilegt líf og kostulegt. Í þessari bók dregur Úlfar Þormóðsson upp myndir af Íslandi fyrri tíma; daglegu lífi og aðstæðum fólks, ekki síst kvenna sem mjög áttu undir högg að sækja. Úlfar fer sjaldnast troðnar slóðir í skrifum sínum. Hér sækir hann sér efnivið í annála og frásagnir sem hann fléttar inn í sögu Ásmundar Gunnlaugssonar og samtíma hans.

Úr bókinni

Hrútsmálið

Það bar til um þessar mundir að svartur höfuðsóttarhrútur sem Ásmundur átti var rekinn á sel fram á Traðardal ásamt öðru fé hans. Hrúturinn hvarf í sláttarbyrjun. Hans mun þó ekki hafa verið leitað. Bráðlega kom upp sá kvittur að Sæunn, fyrrum griðkona hjá kapellán, væri völd að hvarfinu. Hún var þá orðin vinnukona á Kjarlaksvöllum. Þetta barst Ásmundi til eyrna. Hann hélt á fund Skúla Magnússonar, sýslumanns á Skarði, og krafðist þess að hann tæki Sæunni fasta vegna þjófnaðar. Skúli sagði að kæra þyrfti að vera skrifleg, taldi þetta sveitarslef eitt og hann mundi ekki skipta sér af því.
   Ásmundur felldi sig ekki við niðurstöðu sýslumanns. Heim kominn skrifaði hann amtmanni og ákærði sýslumann fyrir að hafa neitað að rannsaka þjófnaðarmál. Lýsti hann málinu síðan með sínu lagi og á þann hátt að amtmaður skrifaði sýslumanni þegar í stað og skipaði honum að kanna málið gaumgæfilega. 
   Sýslumaður brást þegar við og hóf rannsókn. Hann yfirheyrði Sæunni sem sagði að smalahundur hennar hefði horfið frá sér nokkra stund í tvo eða þrjá daga í röð. Þetta vakti forvitni hennar. Á þriðja degi elti hún hundinn fram á Traðardal. Þar sá hún hundahóp umhverfis eitthvert hræ. Sveimaði hrafnager yfir flokknum. Hún stuggaði hundunum frá og kom þá í ljós ræfill af svartri kind. Þar skammt frá sá hún horngarð af svörtum hrúti. Hún sagði að aðeins hefði hluti af öðru lærinu og aftasti partur af hryggnum verið heillegt af þessum garmi. Hún dröslaði ræflinum með sér heim að Kjarlaksvöllum. Húsbóndi hennar sá til hennar og fékk að vita hvar hún hefði fundið hræið. Skipaði hann henni að fara þegar með það þangað sem það hefði legið. Það gerði hún hins vegar ekki því hún þóttist vita að þar mundi það allt lenda í hundskjöftum. Það sem vargrifið var af kjöti gaf hún smalahundinum, en skar nokkra bita úr heillegustu pörtum, setti þá í skinnskjóðu og geymdi í kistli sínum þar til hún sauð þá og át. Vissi heimafólk af þessu. Einhverjir höfðu komið auga á bein úr ræflinum og að minnsta kosti einn séð marklausan horngarðinn án þess að nokkur vissi úr hvaða kind þetta væri þótt mörgum hefði ekki þótt ólíklegt að þetta væri úr týnda hrúti prestsins. Sæunn viðurkenndi að hún hefði vitað að Ásmundur ætti svartan höfuðsóttarhrút á Traðardal og að hann hefði veirð horfinn þegar hún fann ræfilinn á dalnum. Sér hefði svo sem dottið í hug að hræið væri af honum. En þar sem hún fann ekkert mark á garminum sá hún ekkert saknæmt við það að hirða nokkra bita úr vargakjöftum.
   Ásmundur sótti málið stíft. Það vakti undrun manna. Var ýjaði að því að með þessu móti vildi hann ná sér niður á Sæunni fyrir að hafa hrakið frá sér vinnufólkið með óhróðri um hann. Í ofurkappi sínu dró hann marga menn úr sókninni inn í málið og sakaði þá meðal annars um að hafa hótað vitnum og sagt þeim hvað þau ættu að segja fyrir réttinum.
   Þegar yfir lauk sýknaði dómarinn Sæunni af þjófnaði, lét sýsluna bera málskostnað, og þeim sem þættust meiddir af Ásmundi við málsóknina dæmdi hann óskoraðan rétt til að sækja mál af þeim sökum.
   Amtmaður staðfesti dóminn.
   Málið jók hvorki hróður kapellánsins né vinsældir innan sóknar.

(s. 21-22)

 

Fleira eftir sama höfund

Sódóma - Gómorra

Lesa meira

Sambönd: eða blómið sem grær yfir dauðann

Lesa meira

Ákæran: Sóknarnefndin gegn Séra Páli

Lesa meira

Þrjár sólir svartar

Lesa meira

Syngjandi fiskur

Lesa meira

Á fullu tungli

Lesa meira

Hrapandi jörð: Skáldsaga um Tyrkjaránið

Lesa meira

Rauð mold: Skáldsaga um Íslendinga í Barbaríu

Lesa meira

Hallgrímur: Skáldsaga um ævi Hallgríms Péturssonar

Lesa meira