Beint í efni

Úlfar Þormóðsson

Æviágrip

Úlfar Þormóðsson er fæddur 19. júní 1944 í Litlu-Brekku, Hofshreppi á Höfðaströnd í Skagafirði. Hann ólst upp þar nyrðra og suður í Keflavík. Úlfar lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1966 og kenndi við Barna- og unglingaskóla Njarðvíkur frá 1966 til 1972. Hann hóf störf á Þjóðviljanum á miðju ári 1971 og var þar viðloðandi meira og minna allt til ársins 1990. Þá gaf Úlfar út tímaritið Spegilinn á árunum 1983 til 1987. Árið 1984 stofnaði hann listmunahúsið Gallerí Borg og var forstöðumaður þess þar til í mars 1987, og aftur frá ársbyrjun 1990 til ársloka 1992.

Úlfar gaf út sína fyrstu skáldsögu, Sódóma Gómorra, árið 1966. Þá sendi hann frá sér fimm skáldsögur, auk aldarfarslýsinga, sögu Frímúrarareglunnar á Íslandi og tímaritið Spegilinn, sem áður var nefnt, á árunum 1969 til 1993. Síðan þá hefur hann eingöngu unnið að ritstörfum og hefur gefið út fjölda skáldsagna, þar á meðal Hrapandi jörð (2003) og Rauð mold (2004) sem báðar fjalla um Tyrkjaránin. Eilnnig má nefna bækur sem byggja á sögum foreldra hans, Farandskugga (2011) og Boxarann (2012).