Beint í efni

Undirleikarinn

Undirleikarinn
Höfundur
Nina Berberova
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1990
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Akkompaníatorsha eftir Ninu Berberovu í þýðingu Árna Bergmann.

Sonja er fædd utan hjónabands og flytur til Pétursborgar með móður sinni á árum rússnesku byltingarinnar. Hún fetar í fótspor móðurinnar og gerist píanóleikari en atvikin haga því svo að hlutskipti hennar verður að leika undir hjá frægri söngkonu. Sonja lifir sig inní einkalíf stjörnunnar og þráir að leika stærra hlutverki í lífinu en hún gerir - en allt kemur fyrir ekki. Ýmist langar hana til að hefna sín á stjörnunni sem gengur allt í haginn, og koma upp um leyndarmál hennar, eða eiga þau með henni og standa þannig jafnfætis henni. Smám saman verður samband þeirra óbærilegt.

Úr Undirleikaranum

Við töluðum saman, rifjuðum upp árin okkar í N., bernsku mína. Ég veit ekki hvernig það vildi til að hún sagði mér frá því, að faðir minn hefði verið nemandi móður minnar og hefði aðeins verið nítján ára þá. Hún hafði engan elskað áður. Nú væri hann giftur og ætti börn. Ég spurði hvorki að nafni hans né ættarnafni.

Mamma kom heim. Hún var nú komin á sextugsaldur. Hún var lítil og hárið farið að grána, það sama má víst segja um obbann af mömmum, einhverra hluta vegna var hún orðin freknótt á höndum. Ég veit ekki sjálf hvað var að hrærast í mér: ég vorkenndi henni, ég fann svo til með henni að ég vildi leggjast fyrir og gráta og rísa ekki upp aftur fyrr en ég hefði grátið úr mér sálina. Ég var miður mín yfir einni saman tilhugsuninni um þann sem hafði brugðist henni, ég hefði kastað mér yfir hann, kreist úr honum augun, útbitið andlit hans. En þar að auki skammaðist ég mín. Ég skildi að mamma var mín smán rétt eins og ég var hennar skömm. Og að allt okkar líf var vansæmd sem ekki varð úr bætt.

(s. 9-10)

Fleira eftir sama höfund

Svarta meinið

Lesa meira