Beint í efni

Svarta meinið

Svarta meinið
Höfundur
Nina Berberova
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1991
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Tsjornaja bolézn eftir Ninu Berberovu, í þýðingu Árna Bergmann.

Jevgeníj Petrovítsj hefur misst konu sína og býr við fátækt í París. Hann langar að freista gæfunnar og flytur búferlum til Ameríku, þar sem hann ræður sig í vinnu til auðugra mæðgina. Jevgeníj bindur miklar vonir við vin sinn í Chicago en bæði vinurinn, borgin og konurnar sem hann kynntist reynast öðru vísi en hann vænti. Svarta meinið er skemmd sem hefur vaxið í demanti einum á löngum tíma og verður eins konar grunntónn í sögunni. Hún einkennist öll af sérstæðu andrúmslofti, sem er tjáð jöfnum höndum með atburðarás og stíl, á afar listfenginn hátt.

Úr Svarta meininu

Ég segi bílstjóranum hvert hann á að fara. Gaman hefði ég af því að heyra hvernig maður með slíkan hnakka lætur hugsanir sínar í ljós, það er að segja: hvaða orð koma út úr honum og hvar geymir hann þau. Við ökum hratt í miðbæinn sem hrærist saman við mig: ýmist á horninu þar sem fólk fær sér lesningu hjá blaðasalanum eða á gatnamótum þar sem við bíðum eftir grænu ljósi. Ég ímynda mér líf á grænum ljósum einum saman, öll æfin framundan er smarögðum stráð allt út að sjóndeildarhring. Og þar, handan við sjóndeildarhringinn, er beyja og enn á ný stendur þar kona brautarvarðarins með grænan fána eins og á mynd í barnabók. Og það er engin ástæða til þess að þetta taki enda, ef maður kvefast ekki hastarlega eða finnur ekki hjá sér illkynjað æxli, já illkynjað sagði ég.

Þetta er hávær borg og þétt setin en ekki verri en aðrar. Ég hefi margar borgir séð á æfinni, stórar og smáar, en ég skildi þær og mér þótti vænt um þær. Okkur þótti báðum vænt um þær einu sinni, allt þangað til þær tóku að hrynja í kringum okkur ein af annarri. Eftir það fórum við að óttast þær dálítið.

(s. 72)

Fleira eftir sama höfund

Undirleikarinn

Lesa meira