Beint í efni

Tröllakirkja

Tröllakirkja
Höfundur
Ólafur Gunnarsson
Útgefandi
Forlagið
Staður
Reykjavík
Ár
1992
Flokkur
Skáldsögur

Úr Tröllakirkju:

LITLA BÍLASALAN við Vitatorg stendur auð, glugginn svartur eins og lygnublettur í straumþungri og breiðri bergvatnsá. Þar sem húsið var gapir nú grunnur með spýtnarusli og röftum eins og styrjöld hafi verið háð á horninu. Gömul þvottavél undir brakinu og grjótmulningur á hvítri emaléringunni. Pottofnar í haug. Gamli maðurinn stendur og horfir á allt þetta, grettur á svip: Hvernig kom mér til hugar að láta stelpuna hana Sunnevu narra mig svona? Að sjá hvernig þeir fara með ofnana! Og stærstu bjálkana mætti hirða og nýta. Ætli þeim hefði verið fleygt fyrir stríð? Konan hafði sagt að þvottavélin væri ónýt. Tóm vitleysa. Hún vildi bara eina nýmóðins. Í gærmorgun kallaði Geir til sín tvo drengi sem voru að leika sér og gaf þeim epli. Strákhelvítin notuðu þau sem fótbolta úti fyrir búðinni. Ætli maður hefði ekki reynt að brúka á þau tennurnar hér áður fyrr? Hann bölvaði.
 Á blettinum biðu reynitrén kvíðin. Annað hálfdautt. Einhver fábjáni vildi hitt gefins. Hann gróf djúpa rauf í kring og er mættur á Vitatorg með sveran kaðal og vörubíl. Hálfgerður dindilbrokkari virðist þetta vera. Hverslags fólk er það eiginlega sem stundar trjárækt? Tómir fábjánar?
 - Hvað ætlar maðurinn að gera við trén afi? spurði Þórarinn.
 - Hump, sagði sá gamli og svaraði engu.
 - Hvernig líkar þér vestur í bæ?
 - O, alveg bölvanlega Tóti.
 - Tréð drepst, sagði drengurinn.
 - Þú ert nú meiri kúttmaginn kóngsi minn, sagði Geir við dóttursoninn. – Hefurðu það ekki gott hjá honum Hjálmi?
 - Ég hjóla með vörur frá morgni til kvölds, sagði Þórarinn röggsamur.
 - Nú selur hann þetta ansans ári vel? spurði Geir áhyggjufullur.
 - Já, það er alltaf nóg að gera við að afgreiða fólkið, sagði Þórarinn.
 - Og hvar er hann pabbi þinn?
 - Heima í kjallara með Guðbrandi. Þeir eru að skoða teikninguna. Guðbrandur vill hafa húsið öðruvísi.
 - Nú, hvernig öðruvísi Tóti? Gamli maðurinn tók út úr sér pípustertinn.
 - Hann vill hafa það minna. Hann sér ekki ástæðu til að reisa annað Þjóðleikhús segir hann. En pabbi vill engu breyta. Drengurinn sló út hendi. – Pabbi segir að það komi ekki til mála. Það sé allt klappað og klárt. Hann byggi enga hænsnakofa og láti engan segja sér fyrir verkum. 
 - Hænsnakofa! Gamli maðurinn hnussaði. Það vantar ekki kjaftinn á þessa fugla, hugsaði hann. Og nú vantar þau nafnið mitt til málamynda í eitthvert fyrirtæki. Ja, það held ég verði nú fyrirtækið.
 Trjádelerantinn var allur á þönum kringum vörubílinn og vélskófluna. Hann fór úr jakkanum og var á hvítri skyrtu og ullarvesti. Hann hafði tvo syni til aðstoðar. Þeir voru svifaseinir og sá eldri sýnu latari og með hundhaus. Faðir þeirra óð út í moldina á blankskóm og tók að dýpka skurðinn af djöfulmóð, en þreyttist fljótt og rétti þeim eldri skófluna. Sá tók öllu hans umstangi með einni og sömu setningunni: - Já, hvað er þetta maður!
 Þeir hnýttu í stærra tréð. Skóflustjórinn var hinn versti. Vélskóflan rétti upp handlegginn og ræskti sig. Kaðalinn rann óþyrmilega upp börkinn og skóf hann af svo skein í gulan við. Skóflustjórinn talaði svo hátt við sjálfan sig inni í húsi að orðaskil heyrðust:
 - Hvílíkt brjálæði!

(s. 63-64)

Fleira eftir sama höfund

Málarinn

Lesa meira

Milljón prósent menn

Lesa meira

Million-Percent Men

Lesa meira

Fallegi flughvalurinn og Leifur óheppni

Lesa meira

Cathédrale des trolls

Lesa meira

Blóðakur

Lesa meira

Vetrarferðin

Lesa meira

Trolls´s Cathedral

Lesa meira

Tröllakirkja

Lesa meira