Beint í efni

Tól

Tól
Höfundur
Kristín Eiríksdóttir
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Kvikmyndagerðarkonan Villa Dúadóttir situr fyrir svörum á heimildamyndahátíð í Stokkhólmi en spurningarnar vefjast fyrir henni. Nákvæmlega hvernig tengdist hún hvalveiðimanninum Dimma, sem myndin hennar fjallar um? Hvers vegna vildi hún segja sögu hans? Er yfirleitt viðeigandi að hún geri það? Og hvað með Amalíu, sem hún klippti út úr myndinni?

Líkt og í fyrri verkum Kristínar Eiríksdóttur virðist allt blasa við en ekkert er sem sýnist.

Úr bókinni

"Hafa á einhverjum tímapunkti komið upp spurningar um hvort saga Dimma sé yfirleitt þín saga að segja? Að þú sért jafnvel að rómantísera hans hörmulega lífshlaup þér til ávinnings?"
   "Ég veit það ekki. Ég veit ekki hvenær nokkurri manneskju er sjálfrátt eða hver ætti að geta lagt á það mat. Áður en hann dó horfðum við á fullt af klippum saman og ég útskýrði fyrir honum hvernig ég ætlaði að gera þetta ... ef hann hefði verið ósáttur hefði hann sagt mér það og ég hefði aldrei gert neitt nema með hans samþykki ..."

"Já einmitt, auðvitað, en ég á ekki bara við þannig. Þegar við völdum myndirnar inn á hátíðina lögðum við áherslu á myndir sem eru bæði persónulegar og pólitískar. Myndin þín er hvort tveggja um leið og hún reynir allt til þess að vera hvorugt. Þú tekur aldrei afstöðu. Ekki til hvalveiða, ofbeldis eða fíknar sem þó eru umfjöllunarefni myndarinnar. Nærvera þín er sláandi þögul og þó svo að Dimmi tali alltaf beint í myndavélina leið mér oft eins og hann væri einsamall. Að hann væri að tala við myndavélina en ekki manneskjuna sem hélt á henni."
   Ég skil að hún er bara að velta einhverju upp. Tala í þeim anda sem er talað. Ekki að saka mig um neitt en andlitið á mér hitnar samt og ég kreppi og losa um lófana á víxl.
   "Svo er þetta skot. Þessi ótrúlega dramatíska sena," heldur hún áfram, "þegar hann situr þarna á bekknum í rigningunni og spyr þig (eða myndavélina?) aftur og aftur en fær ekki svar og linsan blotnar og fyllist af móðu og þetta virkar mjög meðvitað. Að halda þér í fjarlægð, stíga ekki inn í dramað. Það verður nánast aðalatriðið."
   "Já, einmitt, en það bara gerðist þannig og var ekkert úthugsað. Þetta var eiginlega allt einhvern veginn þannig með þessar senur. Þær gerðust bara."

Senan sem hún vísar í er mjög erfið fyrir mig að horfa á en bara vegna þess að þá hugsa ég um það sem gerðist næst á eftir og náðist ekki á mynd. Spyrillinn virðist ekki búast við betra svari frá mér og er farin að blaða í pappírunum þegar ég átta mig á að ég er komin í vandræðalega mikla varnarstöðu. Öll snúin eins og kleina, eins og ég sé að reyna að komast af sviðinu án þess að þurfa að standa á fætur.

(s. 48-49)

Fleira eftir sama höfund

Kjötbærinn

Lesa meira

Annarskonar sæla

Lesa meira

Húðlit auðnin

Lesa meira

Doris deyr

Lesa meira

Í öðru landi

Lesa meira

Fáránlegt samtal við sjálfa mig

Lesa meira

Tvö ljóð

Lesa meira

Ljóð í Ást æða varps

Lesa meira

Ljóð í Ny islandsk poesi

Lesa meira