Beint í efni

Þögla barnið

Þögla barnið
Höfundur
Guðmundur S. Brynjólfsson
Útgefandi
Sæmundur
Staður
Selfoss
Ár
2019
Flokkur
Skáldsögur

um bókina

Laust fyrir aldamótin 1900 er maður drepinn í Vatnsleysuströnd. Líkið er hræðilega útitekið. En þótt Strandaringar láti sem þeir viti allt um morð þetta er enginn handtekinn. Engar sannanir liggja fyrir en heimamönnum stendur á sama.

Yfirvöld úti í kóngsins Kaupmannahöfn heimta rannsókn. Eyjólfur Jónsson sýslumaður Árnesinga og rannsóknardómari í þessu einstaka máli fær inni í Landakoti á Vatnsleysuströnd og hefur eiginkonu sína, valkyrjuna Önnu Bjarnadóttur, með sér til halds og trausts. Smám saman fara þeim hjónum að birtast þegjandalegir draugar þessarar harðbalalegu sveitar þar sem menn eru drepnir, ekki bara einu sinni heldur jafnvel oft.

Saga Eyjólf sýslumanns fléttast saman við atburði í Lundúnum þar sem sýsluskrifarinn Kár Ketilsson þvælist um og lætur ekkert gott af sér leiða. Yfir um og allt um kring er óslökkvandi brennivínsþorsti, breyskleiki fátækra manna og ást á réttlæti smælingjanna.

Þögla barnið er sjálfstætt framhald glæpasögunnar Eitraða barnið sem kom út 2018.

úr bókinni

Það er gott veður þegar hann leggur af stað. Hægur norðanandvari og merkilega hlýtt. Faxaflóinn er dimmblár og úti á honum vagga fiskiskip af ýmsum gerðum. Sum að veiðum. Önnur á leið í hafnir við flóann eða á leið á miðin, jafnvel út í heim.
   Á Vatnsleysuströndinni er fólk almennt í heyskap.
   Það er tilviljun ein að hann rýkur af stað nákvæmlega á þessum tímapunkti, en hann verður að nota tækifærið, Helgi Jónsson er á leið inn í Keilisnes. Þetta er stundin sem hann hefur beiði eftir. Annað færi betra fær hann líklega ekki. Hann kemur meira að segja við hjá Borgu í Kotinu, stoppar örstutt - en fær styrk af því að tala við hana, segja henni frá. 
   „Já, það er rétt að þú berjir hann. Hann á það skilið að fá einhverja pínu með þessu með þessu, helst ógnarverki. Svo má hann drepast,“ segir hún og tekur svo í nefið. Þurrkar framan úr sér með einhverri dulu sem á að heita tóbaksklútur. Þau kveðjast með kossi góðra vina sem geta treyst.
   Hann hraðar sér á eftir Helga. Honum er ómögulegt að lifa við þessa vissu. Með sjálfum sér hefur hann leitað svara, talað við Guð og flett upp í Biblíunni og látið hana opnast bara þar sem hún vill sjálf. Spurt: Hvað á ég að gera? Það hefur enginn svarað honum beint, ekki einu sinni hann sjálfur. Guð þegir líka þunnu hljóði. En þegar hann spurði Biblíuna, og ekki bara einu sinni heldur í þrígang, þá kom þetta svar: „Hefndarmaður skal drepa vegandann, þegar hann hittir hann.“ Hann las ekkert meira í kringum þetta en þessi orð voru honum nóg, þrisvar sinnum nóg. Hann hafði svo sem heyrt að á milli guðfræðinga væri þvarg um það hvernig ætti að útleggja orðið í hinni helgu bók. Hann sjálfur vissi hvað þetta vers þýddi, komandi svona til hans í hvert sinn sem hann opnaði Biblíuna til þess að fá svar. Nei, hann var svo sem ekkert tiltakanlega trúaður en þarna fékk hann þó svar og um leið fékk hugur hans frí frá ofboðslegri sorg og margs konar vondum tilfinningum. Stutt frí.
   Hann hraðar ferð sinni en gætir þess að alltaf sé það langt á milli þeirra að Helgi geti ekki heyrt í honum. Hólar og dældir skiptast á í landslaginu. Enga sér hann kind en í því hann beygir sig niður til að skýla sér ögn, ef Helgi sneri sér við, sér hann grjót sem hann veit þá þegar að muni duga.

(39-40)
   

 

Fleira eftir sama höfund

Eitraða barnið

Lesa meira

At og aðrar sögur

Lesa meira

Svartlyng

Lesa meira

Endalok alheimsins

Lesa meira

Kattasamsærið

Lesa meira

Þvílík vika

Lesa meira

Gosbrunnurinn : sönn saga af stríði

Lesa meira

Líkvaka

Lesa meira

Tímagarðurinn : eða Leitin að fegurðinni

Lesa meira