Beint í efni

Svanafólkið

Svanafólkið
Höfundur
Kristín Ómarsdóttir
Útgefandi
Partus
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Elísabet starfar við eftirlit hjá leynilegri sérdeild innanríkisráðuneytisins og er við það að uppgötva nokkuð sem mun koma öllu lífi hennar úr jafnvægi.

Kristín Ómarsdóttir fer með lesandann í ævintýralegt ferðalag og veltir um leið upp áríðandi spurningum um hvað það þýðir að tilheyra fjölskyldu, þjóð, líftegund.

Úr Svanafólkinu

Á meðan ég lést sofa hlustaði ég á pískur og raul og þungstígt stúss í kringum dyngjuna. Opnaði ég augun var ein mætt að loka þeim svo ég lét vera að kíkja og naut gíslingarinnar. Þær töluðu tungumál sem foreldrar mínir hefðu haft áhuga á að rannsaka, aldrei heyrði ég önnur eins hljóð og óhljóð og laglínurnar bjuggu utan við þekkt tónakerfi. Hvað ég óska þess að geta lýst því nákvæmlega. Lykt af báli og brenndum jurtum fyllti vitin. Þær vöktu mig sem vakti, færðu mér gleraugun og studd svanakerlum steig ég uppúr dyngjunni. Bálköstur logaði og trén voru skreytt drasli, logum og slaufum, matardiskar lágu á köflóttum dúk, í skálum lágu djúpsteiktar rætur, lambaspörð og sprek, bein, fiskar, grös, mosi, ormar og síli og frosin ber og margt gótgætið. Níu svanakerlingar sátu kringum bálið, hliðruðu til fyrir mér og buðu mér sæti. Kettir með þykka skrautfeldi gengu á milli og strukust við okkur, virtust bíða eftir afgöngunum eða eftir einhverju biðu þeir. Fljótlega myndi nátta. Ég kæmi aldrei heim fyrir myrkur.
  Þær buðu mér að gjöra svo vel og ég valdi á disk minn síli.
  "Við vitum hver þú ert," mælti leiðtoginn einsog ég kaus að kalla skepnuna sem sat hærra en hinar á bleikum púðum og með skíðagleraugu, "á svæðið mætir þú undanfarið að njósna um okkur fyrir borgaryfirvöld. Hvert er planið? Á að útrýma okkur?" spurði leiðtoginn og sporðrenndi síli, fingurna prýddu hringar og úlnliðina armbönd. Áður en ég tók til máls sporðrenndi ég líka síli.
  "Það hefur komið til tals að flytja ykkur í Húsdýragarðinn," svaraði ég djörf og hugsunarlaust en mér datt þetta skyndilega í hug og seinna kom í ljós að hugmyndin var alls ekki svo fjarstæðukennd. Þá hló leiðtoginn ásamt fleirum en Ástríður Petra hastaði á þær og mælti: "Þar fáum við daglega að borða, læknisþjónustu, skjól og öryggi og þurfum ekki að fela okkur heldur sýna okkur fyrir gestum."

(29-30)

 

Fleira eftir sama höfund

Við tilheyrum sama myrkrinu – af vináttu: Marilyn Monroe og Greta Garbo

Lesa meira

Children in the Reindeer Woods

Lesa meira

Hjartatrompet

Lesa meira

Margrét mikla

Lesa meira

Smásögur

Lesa meira

Afmælistertan

Lesa meira

Margar konur

Lesa meira